Kajakræðarar fundnir heilir á húfi

Leitað á Faxaflóa.
Leitað á Faxaflóa. mbl.is/Hilmar Bragi.

Kajakfólkið sem leitað hefur verið að síðan í gær fannst heilt á húfi við Sjöundá á Rauðasandi. Kajakfólkið, kona og karl, hafði tjaldað við bæinn og amaði ekkert að því og var það mjög undrandi á öllu umstanginu, en um tvö hundruð björgunarsveitarmenn frá þriðja tug björgunarsveita Slysavarnafélagsins Landsbjargar höfðu leitað þeirra.

Í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni kemur fram að mikill viðbúnaður hefur verði hjá björgunarsveitum og Landhelgisgæslunni en Fokker flugvél Landhelgisgæslunnar var nýlögð af stað til leitar þegar fólkið fannst. Björgunarþyrla Landhelgisgæslunnar var við leit í margar klukkustundir í gær auk sjómælingabátsins Baldurs og mikill viðbúnaður var í vaktstöð siglinga/stjórnstöð Landhelgisgæslunnar.

Samkvæmt upplýsingum frá Slysavarnafélaginu Landsbjörgu kom fólkið, þýsk kona og bandarískur karlmaður, í land á milli bæjanna Sjöundár og Melaness á Barðaströnd um klukkan 09:30 eftir að hafa róið yfir Breiðafjörð.

Um 45 mínútum síðar fundu björgunarsveitarmenn af Barðaströnd kajakræðarana þar sem þeir höfðu nýlokið við að reisa tjald sitt.

Ræðararnir lögðu upp frá Garðskaga á laugardagsmorgun, að því er best er vitað, og ætluðu yfir Faxaflóa að Snæfellsnesi. Búist var við þeim þangað í fyrrakvöld eða gærmorgun, en þegar þeir skiluðu sér ekki bað tengiliður þeirra í landi um aðstoð.

Sjöundá er afskekkt eyðibýli innst á Rauðasandi. Árið 1802 var þar tvíbýli og Bjarni Bjarnason og Steinunn Sigurðardóttir myrtu maka sína, Guðrúnu Eigilsdóttur og Jón Þorgrímsson, til að geta verið saman án afskipta þeirra. Bjarni og Steinunn voru dæmd til pyndinga og dauða. Bjarni var sendur til Danmerkur til aftöku 1804 en áður lézt Steinunn í fangelsinu á Arnarhóli. Hún var dysjuð á Skólavörðuholti, þar sem dys hennar (Steinkudys) sást fram á 20. öld, þegar beinin voru færð í vígðan reit. Skáldsagan Svartfugl eftir Gunnar Gunnarsson byggist á þessum atburðum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert