Missti stjórn á 500 hestafla ofursportbíl sem endaði á umferðarskilti

Ökumaður sem sat undir stýri Ford GT sportbíl missti stjórn á bifreiðinni með þeim afleiðingum að bifreiðin endaði á umferðarskilti utanvegar. Ökumaðurinn, sem er starfsmaður Brimborgar sem á bifreiðina, var að ferja bílinn í þrif fyrir sýningu á bíladeginum sem verður haldinn 17. júní. Fram kemur á vef Brimborgar að sem betur fer hafi ekki orðið nein slys á fólki.

Á vef Brimborgar segir jafnframt að sportbíllinn hafi verið fluttur hingað til lands í þeim tilgangi að beina sjónum ökumanna að þeirri ábyrgð sem þeir beri sem stjórnendur ökutækis í umferðinni. Brimborg hafi frá upphafi lagt áherslu á markmið sitt í þessu sambandi undir slagorðinu „Beislum kraftinn af ábyrgð“.

„Brimborg hefur frá upphafi viðhaft mjög skýrar reglur um notkun Ford GT enda er hér um að ræða ofuröflugan og léttan sportbíl með yfir 500 hestafla vél, sem aka þarf með sérstakri varúð. Í umræddri ökuferð var ekki um hraðakstur að ræða heldur vankunnáttu á því gríðarlega afli sem bíllinn býr yfir, og vanmat á þeim aðstæðum sem fyrir hendi voru. Að þessu sinni var krafturinn því miður ekki beislaður af ábyrgð – með öðrum orðum nægilegri varfærni sem nauðsynleg er þegar um bíl er að ræða sem maður þekkir ekki og er að aka í fyrsta sinn. Ökumanni bílsins, starfsmanni Brimborgar, hefur þegar verið boðin áfallahjálp,“ segir á vef Brimborgar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert