Sjálfbært Ísland fékk verðlaun veitingahúsaeigenda í Washington

Baldvin Jónsson með viðurkenninguna en með honum eru Adrian Fenty …
Baldvin Jónsson með viðurkenninguna en með honum eru Adrian Fenty borgarstjóri í Washington Lynne Breaux, forseti Samtaka veitngahúsa í Washington og nágrenni Gus DiMillo formaður hátíðarnefndarinnar.

Fyrirtækið Áform, sem selur íslenskar landbúnaðarafurðir á Bandaríkjamarkaði undir vörumerkinu Sjálfbært Ísland, var í gærkvöldi valið fyrirtæki ársins á verðlaunahátíð samtaka veitingahúsaeigenda á höfuðborgarsvæðinu í Washington. Baldvin Jónsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, tók við viðurkenningunni.

Baldvin sagði við Fréttavef Morgunblaðsins, að þessi viðurkenning hefði verið kærkomin og vakið athygli enda hefðu um 1700 manns verið á verðlaunahátíðinni þar sem samtök veitingahúsa á Washingtonsvæðinu veittu verðlaun í ýmsum flokkum. Þá var íslenskt smjör á öllum borðum í veislunni og eftirrétturinn var búinn til úr skyri samkvæmt uppskrift veitingamannsins David Guas.

Baldvin sagði, að þessi viðurkenning muni án efa greiða fyrir því að koma íslenskum landbúnaðarafurðum inn í veitingahús á þessu svæði og sé um leið mikil viðurkenning á þessum vörum.

Cathal Armstrong, veitingamaður á veitingahúsinu Eve, var valinn matreiðslumaður ársins á hátíðinni í gærkvöldi og fékk að launum ferð á Food and Fun hátíðina á Íslandi á næsta ári. Þrír matreiðslumenn, sem allir hafa tekið þátt í Food and Fun, afhentu Armstrong verðlaunin. Þá var Adrian Fenty, nýr borgarstjóri í Washington, viðstaddur verðlaunahátíðina í gær en hann stefnir að því að koma á Food and Fun á næsta ári.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert