Fulltrúar Alcan áttu fund með iðnaðarráðherra

Rannveig Rist, forstjóri Alcan á Íslandi, og Michel Jacques, forstjóri …
Rannveig Rist, forstjóri Alcan á Íslandi, og Michel Jacques, forstjóri Alcan Primary Metal Group, koma til fundar í iðnaðarráðuneytinu í dag. mbl.is/Sverrir

Erlendir og innlendir ráðamenn álfélagsins Alcan áttu í dag fund með Össuri Skarphéðinssyni, iðnaðarráðherra, þar sem fjallað var um ýmsa kosti sem skoðaðir hafa verið til að stækka álverið í Straumsvík eða færa það til.

Össur sagði eftir fundinn, að meðal annars hefði verið farið yfir þann möguleika að stækka álverssvæðið í Straumsvík með landfyllingu en Össur telur það vart raunhæfan kost, s.s. vegna kostnaðar og tæknilegra örðugleika. Sú hugmynd bar m.a. á góma í viðræðum milli fulltrúa Alcan og bæjarstjóra Hafnarfjarðar í gær.

„Satt best að segja held ég að hugmyndin sé fremur torveld í framkvæmd, því hún yrði mjög dýr og alveg ljóst að henni fylgja töluverð vandamál. Hins vegar er það þeirra réttur að skoða alla þá möguleika sem þeir vilja, en mér fannst þessir menn töluvert jarðbundnir varðandi þá möguleika sem eru í stöðunni, og gera sér alveg grein fyrir því hvað er framkvæmanlegt og hvað ekki,“ sagði Össur.

Alcan hefur einnig leitað eftir því hjá sveitarstjórnum í Vogum og Þorlákshöfn hvort til greina komi að reisa þar álver, þ.e. á Keilisnesi eða í Þorlákshöfn. Össur segir að ítarlega hafi verið farið yfir þann möguleika á að reisa álver til framtíðar í Þorlákshöfn en áréttar að fulltrúarnir hafi haldið því til haga að allir kostir komi enn koma til greina.
Íbúaþing verður haldið í Vogum í kvöld til að ræða málið.

Forsvarsmenn Alcan áttu einnig í dag fund með fulltrúum Landsvirkjunar vegna viljayfirlýsingar Alcan og Landsvirkjunar sem gerður var í fyrra um gerð raforkusamnings til stækkunar álversins í Straumsvík. Á fundinum fóru forsvarsmenn Alcan fram á að viljayfirlýsingin um forgang fyrirtækisins að raforku yrði framlengd en að óbreyttu fellur hún úr gildi 30. júní næstkomandi.

Fulltrúar Landsvirkjunar svöruðu því til að þeir myndu skoða á næstu dögum hvort framlenging samkomulagsins kæmi til greina og þá með hvaða skilyrðum, samkvæmt upplýsingum Þorsteins Hilmarssonar, upplýsingafulltrúa Landsvirkjunar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert