6 ára fangelsi fyrir manndrápstilraun

Lögreglubíll utan við húsið þar sem árásin var gerð.
Lögreglubíll utan við húsið þar sem árásin var gerð. mbl.is/Júlíus

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í dag tæplega fertugan karlmann, Ara Kristján Runólfsson, í 6 ára fangelsi fyrir manndrápstilraun en maðurinn stakk annan mann tvívegis í brjóstið með hnífi í íbúð við Hátún í Reykjavík í apríl á þessu ári og fór önnur stungan gegnum brjóst­vegg og kom við það gat á framvegg hjartans. Segir í dómnum, að annað hvort kraftaverk eða læknisfræðilegt afrek réði því að maðurinn, sem varð fyrir stungunni, hélt lífi.

Fram kemur í dómnum, að þegar árásin gerð sátu nokkrir menn að drykkju í íbúðinni og horfðu á knattspyrnuleik milli PSV-Eindhoven og Liverpool í sjónvarpi. Þeir drukku bjór, vodka og rósavín og voru ýmist ölvaðir eða ofurölvi. Skyndilega fóru Ari Kristján og sá sem fyrir árásinni varð að deila en óljóst er hvert tilefnið var. Ari bar við yfirheyrslur, að hann hefði misst stjórn á skapi sínu, sótt hníf og lagt til hins mannsins. Sagðist hann telja að hann hefði stungið hinn manninn tvívegis en gæti ekki lýst atlögunni eða aðdraganda hennar nánar, enda verið sljór af völdum áfengis- og lyfjaneyslu.

Sagðist Ari hafa byrjað að drekka bjór og vodka á hádegi þennan dag en auk þess hefði hann gleypt töluvert magn róandi lyfjum: librium, nosinal, mogadon og valium.

Auk fangelsisdómsins var Ari dæmdur til að greiða manninum, sem hann stakk, 1,5 milljónir króna í bætur. Þá var hann dæmdur til að greiða rúmar 900 þúsund krónur í sakarkostnað.

Fram kemur í dómnum, að maðurinn sem varð fyrir stungunni hafi fengið hjartastopp á sjúkrahúsi en tókst að koma hjartanu af stað með beinu hnoði í allt að 10 mínútur og rafstuði. Tómas Guðbjartsson, sérfræðingur í hjartaskurðlækningum, bar fyrir dómi að um lífshættulegan áverka hefði verið að ræða þar sem skjót við­brögð hefðu skilið á milli feigs og ófeigs í bókstaflegri merkingu. Hjartastoppi fylgi skerðing á heilastarfsemi vegna blóðþurrðar, sem hafi í för með sér óaftur­­kræfar breytingar að liðnum 4 mínútum. Maðurinn hefði „dottið út“ í nær svo langan tíma, en með blóðgjöf og hinu beina hnoði hjartavöðvans hefði læknum tekist að viðhalda blóð­flæði um líkamann. Þá hafi hjartaáverkann gróið án varanlegra skemmda og taldi Tómas ósennilegt að sá áverki myndi hafa áhrif á lífsgæði mannsins í framtíðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert