Fjölmenni á kynningarfundi í Þjórsárveri

Hluti fundarmanna á fundinum í Þjórsárveri.
Hluti fundarmanna á fundinum í Þjórsárveri. mbl.is/Sig. Jóns.

Íbúar í Flóahreppi og aðrir gestir fylltu nánast samkomusal félagsheimilisins Þjórsárvers í kvöld til að fylgjast með kynningu á aðalskipulagi þess hluta Flóahrepps sem náði til Villingaholtshrepps. Fyrir aðra hluta hreppsins, fyrrum Hraungerðishrepps og Gaulverjabæjarhrepp hafði verið unnið aðalskipulag áður en þeir sameinuðust í Flóahrepp. Á fundinum kom fram andstaða fundargesta við virkjun Urriðafoss. 

Fyrir fundinum lá að kynna tvær tillögur sem voru eins að öllu leyti nema önnur var  sýnd með stíflumannvirkjum og lóni Urriðafossvirkjunar ásamt svæðum fyrir vinnubúðir og þjónustumannvirki vegna virkjunarinnar.

Hreppsnefnd Flóahrepps hafði áður samþykkt að mæla ekki með því að setja Urriðafossvirkjun á aðalskipulag vegna þess að ekki væri nægilegur ávinningur af virkjuninni fyrir sveitarfélagið og óljóst væri hvernig skaðinn af virkjuninni yrði bættur.

Í kjölfarið funduðu fulltrúar Landsvirkjunar með fulltrúum sveitarfélagsins um mögulegar mótvægisaðgerðir og kynnti Margrét Sigurðardóttir sveitarstjóri niðurstöður þeirra viðræðna fyrir fundargestum. Felast þær í endurbótum vega í sveitarfélaginu, kostun á nýjum aðveitum, endurbótum á GSM-sambandi á svæðinu auk þess sem Landsvirkjun myndi byggja upp kynningaraðstöðu fyrir virkjunina sem gæti nýst öðrum ferðaþjónustuaðilum.

Fundargestir fengu tækifæri til að taka til máls að kynningu lokinni og lýstu sig nær allir andvíga virkjun Urriðafoss.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert