Laumufarþegarnir verða fluttir til Möltu

Yfirvöld á Möltu þurfa oft að skjóta skjólshúsi yfir svokallað …
Yfirvöld á Möltu þurfa oft að skjóta skjólshúsi yfir svokallað bátafólk sem freistar þess að komast til Evrópu. Reuters

Það hefur verið staðfest að laumufarþegarnir 21 sem fundust á flotkvíum sem íslenskt skip dregur nú áleiðis til Möltu séu komnir um borð í skipið og þeim heilsist vel eftir að þeim var veitt aðhlynning. Pétur Ásgeirsson skrifstofustjóri hjá utanríkisráðuneytinu sagði í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins að hann væri í sambandi við skipstjóra skipsins og að reiknað væri með að flytja fólkið til Möltu samkvæmt alþjóðlegum reglum um næstu öruggu höfn en að siglingin tæki nokkra daga.

Skipið sem hefur legið í höfn í Valetta á Möltu var sent að landhelgi Líbýu til að aðstoða annað skip við að draga flotkvíar sem notaðar eru við túnfisksveiðar. Hitt skipið mun hafa reynst of afllítið til að draga kvíarnar sem eru grindarbúr sem mara hálf í kafi.

Að sögn Péturs mun íslenska skipið hafa verið hálfnað á leið sinni til Möltu með kvíarnar í togi er annað skip mun hafa komið fólkinu á kvíarnar í skjóli nætur.

Laumufarþegarnir eru taldir vera frá Norður-Afríku en ein ung kona í hópi þeirra var látin er þau fundust á flotkvíunum.

Að svo stöddu er ekki búið að greina frá nafni skipsins en um borð er níu manna áhöfn en einungis skipsstjórinn er íslenskur.

Utanríkisráðuneytið staðfesti að í hópi laumufarþeganna sem væru á lífi væru 18 karlar og 3 konur og þeim heilsaðist öllum vel eftir að þau voru tekin um borð í skipið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert