Íslendingur óttasleginn eftir sprengingu í Danmörku

Húsið sem sprakk er rústir einar.
Húsið sem sprakk er rústir einar. mynd/Margrét Sæberg
Eftir Evu Bjarnadóttur eva@mbl.is
„Það eru allir í sjokki,“ segir íslensk kona, sem býr í raðhúsahverfi rétt hjá Árósum, þar sem hús sprakk um fjögur leytið í nótt. Ekkert er vitað um tildrög sprengingarinnar, en lögregla segir að ekki hafi verið um gassprengingu að ræða.

Hús Margrétar Sæberg, námsmanns í Danmörku, er aðeins í um einnar mínútu fjarlægð frá húsinu sem sprakk í nótt. Margrét segist ekki hafa heyrt þegar sprengjan sprakk en hópur lögreglumanna hafi verið úti á götu þegar hún vaknaði í morgun. „Þetta er allt mjög óhugnanlegt. Húsið var algerlega jafnað við jörðu og það eru múrsteinar úti um allt,“ segir Margrét, sem bjóst ekki við slíku í rólegu raðhúsahverfi rétt fyrir utan Árósa. Enginn var í húsinu en fjölskyldan flutti burtu fyrir um fjórum dögum síðan.

Margrét segir svæðið hafa verið tryggilega girt af og hvorki lögregla né leigufélagið sem á húsið hafa viljað tala við fjölmiðla, sem flytja þrátt fyrir það fréttir frá atvikinu í beinni útsendingu. Ýmsar getgátur eru uppi um það hvað hafi gerst. Einhverjir segjast hafa séð þrjá menn hlaupa frá húsinu í nótt en ekkert slíkt hefur verið staðfest af lögreglunni.

Einn maður var handtekinn vegna málsins í morgun en var sleppt aftur um hádegi. Enginn slasaðist í sprengingunni, en fjögur hús í kring eru rafmagnslaus, samkvæmt frétt Jyllands-Posten.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert