Matarleifar lokka máva inn í borgina

Sílamávar á Tjörninni í Reykjavík.
Sílamávar á Tjörninni í Reykjavík. mbl.is

Á næstu dögum verða veggspjöld hengd upp á ýmsum opinberum stöðum í Reykjavík með skilaboðum um að draga megi úr uppgangi máva með bættri umgengi og færri brauðgjöfum. Fræðsla um fylgni á milli umgengni og fjölda sílamáva er liður í því átaki að beina fuglinum frá borginni, að því er segir í tilkynningu.

Umhverfissvið Reykjavíkurborgar hefur verið í markvissum aðgerðum til að fækka mávnum í borginni. Mávi hefur verið fækkað með skotveiðum í varpi undanfarin ár og verið fældur frá Tjörninni. Umhverfisráð samþykkti á liðnu ári að efla fræðslu til almennings um áhrif góðrar umgengni á fjölda máva í borginni. Það var gert í ljósi ónæðis sem borgarbúar telja sig verða fyrir vegna sílamávsins.

„Nú viljum við fá borgarbúa til liðs við okkur með því að draga úr óbeinum matargjöfum," segir Guðmundur B. Friðriksson á skrifstofu Neyslu- og úrgangsmála, í fréttatilkynningu.

„Við munum meðal annars setja upp tvö fræðsluskilti við Tjörnina um sílamávinn þar sem fram koma upplýsingar um fuglinn og ábendingar um áhrif umgengni á fjölda máva í borginni."

Guðmundur ráðleggur fólki að draga úr brauðgjöf við Tjörnina í júní og júlí á meðan andarungar eru að komast á legg - en þeir borða ekki brauð. Bættur frágangur á úrgangi skiptir einnig miklu máli ef sporna á við ágangi máva. „Enginn ætti að skilja eftir mat eða matarleifar á víðavangi, " segir hann.

Sílamávurinn er alæta og er duglegur að bjarga sér. Hluti máva hefur aðlagast borgarlífinu og ber sig eftir matarleifum sem leynast víða. Ör fjölgun máva í þéttbýli síðastliðin ár stafar m.a. af minni sílagengd í sjó en áður - en ekki síður af umgengi borgarbúa. Mávurinn leitar víða inn í borgina en gott ráð til að fækka honum er að skilja aldrei eftir óvarðar matarleifar, henda ekki rusli á götum úti og að ganga vel frá öllum úrgangi, samkvæmt tilkynningu.

Guðmundur vonast eftir góðu samstarfi og jákvæðum undirtektum íbúa til að fækka mávum því fuglinum fylgir bæði ónæði og óþrifnaður. Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur mun senda bréf til veitinga- og skyndibitastaða í borginni þar sem meðal annars eru ábendingar um að gæta þess að hafa ruslagáma og tunnur ævinlega lokaða og að úrgangur liggi ekki við ruslagáma á lóð fyrirtækja.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert