Þurfti að hætta eftir tuttugu tíma sund

Benedikt Lafleur var að vonum þreyttur eftir sundið.
Benedikt Lafleur var að vonum þreyttur eftir sundið. mbl.is/Jón Svavarsson

Benedikt Lafleur þurfti að hætta að sundi yfir Ermarsund eftir rúmlega tuttugu tíma sund um miðnætti í nótt að enskum tíma. Að sögn Benedikts var mjög leiðinlegt að þurfa að hætta þar sem hann var kominn mjög nálægt strönd Frakklands.

„Það munaði engu að við næðum þessu og sorglegt að það tókst ekki," að sögn Benedikts þegar Fréttavefur Morgunblaðsins náði sambandi við hann nú í morgun. Benedikt átti eftir 4-5 sjómílur þegar hann hætti að synda í nótt.

Benedikt hóf sundið klukkan 04:50 að staðartíma aðfararnótt sunnudags og segist hann hafa lent í erfiðleikum í byrjun vegna velgju og sjógangs. Um miðbik ferðarinnar gekk sundið vel en þegar Benedikt nálgaðist strendur Frakklands lenti hann í erfiðleikum vegna þungra strauma auk þess sem hitastig sjávar var mjög lágt.

Ólíklegt að Benedikt geri aðra tilraun

„Það var mjög svekkjandi að horfa til lands en straumarnir voru mér andsnúnir," segir Benedikt.

Að sögn Benedikts vonast hann til þess að sundið hafi vakið athygli á málstaðnum en tilgangur sundsins yfir Ermarsund var að vekja athygli á mansali í heiminum. Benedikt telur ósennilegt að hann muni gera aðra tilraun til þess að synda yfir Ermarsund, að minnsta kosti á næstunni.

Annar íslenskur sundgarpur Benedikt Hjartarson hyggst einnig freista þess að synda yfir Ermarsund á næstu dögum en hann er á eftir nafna sínum í röðinni gagnvart skipuleggjendum slíkra sunda.

Leiðin yfir Ermarsund, milli Dover á strönd Englands til Calais í Frakklandi, er 32 km.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert