Vegaframkvæmdum fyrir 6,5 milljarða verður flýtt

mbl.is/KG

Ríkisstjórnin hefur ákveðið að flýta vegaframkvæmdum á ellefu stöðum á landinu og er það liður í aðgerðum til að mæta skerðingu á aflamarki á næsta fiskveiðiári. Alls á að veita 6,5 milljörðum króna umfram það sem áður hafði verið ákveðið í þessar flýtiframkvæmdir árin 2008, 2009 og 2010.

Fram kemur í fréttatilkynningu frá samgönguráðuneytinu að með því að flýta samgönguframkvæmdum sé leitast við að draga úr áhrifum samdráttar í fiskveiðum um leið og ráðist sé í margvíslegar tímabærar framkvæmdir sem til þessa hafa verið á langtímasamgönguáætlun en er nú flýtt verulega.

Framkvæmdirnar eru flestar þegar inni í samgönguáætlun en eitt nýtt verkefni bætist við, endurbættur vegur um Öxi. Með þessari ákvörðun er unnt að hefja á næstunni undirbúning þessara verkefna og má gera ráð fyrir að hægt verði að auglýsa útboð á næstu misserum.

Fjárheimilda verður aflað eftir því sem við á ásamt því að verkefnin munu koma fram í tillögum um breytingar á samgönguáætlun sem lagðar verða fyrir Alþingi í haust. Tekið skal fram að engum framkvæmdum verður seinkað vegna þessara breytinga. Einnig er vakin athygli á því að á öllum þeim svæðum sem hér er átt við eru margvíslegar vegaframkvæmdir ýmis hafnar eða í sjónmáli á þessu ári.

Flýtiféð skiptist þannig:

  • Árið 2008 1530 milljónir króna.
  • Árið 2009 2150 milljónir króna.
  • Árið 2010 2920 milljónir króna.

Suður- og Suðvesturland:
Suðurstrandavegur. Veita á rúmlega 1400 milljónum króna til vegarins árin 2008, 2009 og 2010 sem þýðir að unnt verður að ljúka veginum árið 2010 í stað 2015 til 2018 eins og áformað var. Vegurinn er mikilvægur fyrir sjávarútvegsbyggðirnar í Grindavík og Þorlákshöfn og skapar möguleika á samstarfi og vexti.

Vesturland:
Fróðárheiði. Tveimur köflum er ólokið, milli Egilsskarðs og Sæluhúss og milli Valsvatns og Útnesvegar. Með 600 milljóna króna fjárveitingu er stefnt að því að vinna við lokaáfanga geti hafist árið 2009.

Vestfirðir:
Vestfjarðavegur. Flýtt verður framkvæmdum í austanverðum Þorskafirði og milli Vattarfjarðar og Vatnsfjarðar. Með því verður vegasamband milli suðurhluta Vestfjarða og höfuðborgarsvæðisins komið í nútímalegt horf árið 2010 nema á veginum milli Vattarfjarðar og Kjálkafjarðar þar sem ólokið er umhverfismati vegna þess kafla.

Göng milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar. Ekki þarf að fara mörgum orðum um mikilvægi Arnarfjarðarganga fyrir samgöngur milli suður- og norðurhluta Vestfjarða. Gert er ráð fyrir að flýta framkvæmdum þannig að göngum megi ljúka árið 2012 í stað 2014 og um leið verði ráðist í vegabætur á Dynjandisheiði. Gert var ráð fyrir 3,8 milljarða fjárveitingu árin 2011 til 2014 skv. tillögu að langtímasamgönguáætlun en gert er ráð fyrir einum milljarði króna verði veitt í verkið árin 2009 og 2010.

Strandavegi milli Hólmavíkur og Drangsness verði að mestu lokið með bundnu slitlagi árið 2009. Þannig er stuðlað að því að byggðin verði eitt atvinnusvæði.

Norður- og Austurland:
Tengingum Raufarhafnar og Þórshafnar við hina nýju Hófaskarðsleið yfir Melrakkasléttu verður flýtt og henni lokið árið 2010.

Norðfjarðargöng. Veita á alls 2,3 milljörðum til ganganna árin 2009 og 2010 en fyrstu fjárveitingar voru áætlaðar á árunum 2011 til 2014. Með þessu er stefnt að því að göngin verði tilbúin árið 2012.

Dettifossvegur. Þótt þessi vegur tengi ekki sjávarbyggðir er hann mjög mikilvægur fyrir vöxt og viðgang annarrar atvinnustarfsemi á þessu svæði þar sem sjávarútvegur þarf að láta undan síga. Ljúka á veginum 2010.

Axarvegur. Vegur um Öxi er talinn hafa mikla þýðingu fyrir sjávarbyggðir á sunnanverðum Austfjörðum og hefur núverandi vegur þegar sýnt það. Hér er áformuð mun betri tenging Djúpavogs við Hérað og jafnvel Breiðdalsvíkur og Hafnar við Mið-Austurland sem skapar þessum byggðarlögum verulega aukna möguleika til vaxtar. Stefnt að verklokum árið 2011.

Hafnamál
Samkvæmt núgildandi hafnalögum er gert ráð fyrir að ný ákvæði þeirra um styrktar hafnarframkvæmdir sveitarfélaga taki gildi 1. janúar 2009. Að óbreyttu mun það leiða til þess að sveitarfélög sem þegar hafa fengið heimildir til framkvæmda á grundvelli eldri styrkjareglna í samgönguáætlun, munu ráðast í þessar framkvæmdir á næsta ári, hvað sem líður tekjusamdrætti vegna skertrar þorskveiði, til þess að missa ekki af þeim betri styrkjum sem eldra kerfi fól í sér. Ríkisstjórnin telur að engin ástæða sé til annars en heimila sveitarfélögum sem þess óska að fresta hafnarframkvæmdum, sem eru nú þegar í samgönguáætlun skv. eldri styrkjareglum tímabundið á meðan samdráttur aflamarks varir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert