Fjórir milljarðar á 14 dögum

Mesti háannatími ferðaþjónustunnar frá upphafi er framundan en von er á um 40.000 erlendum ferðamönnum næstu tvær vikurnar. Talið er að þessir erlendu gestir muni skila í þjóðarbúið að minnsta kosti fjórum milljörðum króna í tekjur næstu 14 daga segir ferðamálastjóri.

Magnús Oddsson, ferðamálastjóri, segir aðspurður að skortur á þjálfuðu vinnuafli sé sá þröskuldur, sem gæti hugsanlega hamlað vexti í ferðaþjónustunni hér á landi í framtíðinni, enda sé ferðaþjónustan vinnuaflsfrek. Landið geti þó tekið á móti fleiri ferðamönnum svo lengi sem dreifing ferðamannanna haldist jöfn um landið.

Erlendu ferðamennirnir koma fyrst og fremst frá fjórum svæðum: Bandaríkjunum, Bretlandi, Mið-Evrópu og Norðurlöndunum, en Bretland hefur verið í hvað mestum vexti það sem af er árinu.

Þeir ferðamenn sem mbl.is ræddu við í dag sögðust vera ánægðir með þá þjónustu sem þeim hefur verið veitt hérlendis, auk þess sem veðrið hafi verið með besta móti. Nú sem fyrr er það verðlagið sem er helsta umkvörtunarefnið, sem þeim þykir vera allt of hátt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert