Matvæli dýrust á Íslandi

mbl.is/Jim

Verð á matvælum var hæst á Íslandi í evrópskri könnun á verði matvæla, áfengis og tóbaks, sem gerð var vorið 2006. Af þeim ríkjum sem þátt tóku var hlutfallslegt verðlag matvæla á Íslandi hæst eða 61% hærra en að meðaltali í þeim 25 ríkjum sem tilheyrðu Evrópusambandinu. Í Noregi var verðlag 56% hærra, í Danmörku 39% hærra en tæpum 20% hærra í Svíþjóð og Finnlandi.

Í frétt á vef Hagstofu Íslands kemur fram að samanburðurinn náði til Íslands auk 36 annarra Evrópuríkja, það er 27 núverandi ríkja Evrópusambandsins, Noregs og Sviss, Albaníu, Bosníu Hersegóvínu, Króatíu, Makedóníu, Serbíu, Svartfjallalands og Tyrklands. Hagstofa Evrópusambandsins, Eurostat, hafði umsjón með könnuninni.

„Miklu máli skiptir fyrir niðurstöður samanburðarins hvaða tímabil er miðað við, sérstaklega á Íslandi þar sem gengi krónunnar breytist mikið og jafnframt hefur lækkun virðisaukaskatts 1 mars 2007 áhrif.

Í könnuninni var miðað við meðalverðlag og meðalgengi ársins 2006. Verð á matvælum lækkaði um 2,7% frá árinu 2006 til maí 2007 en gengi íslensku krónunnar hækkaði um 3,2% á sama tímabili. Miðað við þessar forsendur ásamt verð- og gengisþróun í hinum löndunum, var hlutfallslegt verðlag á Íslandi heldur lægra í maí 2007 en það var í könnuninni árið 2006, eða 57% hærra en að meðaltali í 25 ríkjum Evrópusambandsins," að því er segir í frétt Hagstofu Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert