Forseti ASÍ svarar gagnrýni framkvæmdastjóra SA

mbl.is

Forseti ASÍ hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna orða Vilhjálms Egilssonar, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, um eftirlit með verðlagi í landinu, einkum matvælaverði.

Yfirlýsing forseta ASÍ

„Vegna yfirlýsinga Vilhjálms Egilssonar, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, um Verðlagseftirlit ASÍ skal eftirfarandi tekið fram:
Verkalýðshreyfingin, bæði ASÍ og einstök stéttarfélög, hafa um mjög langt skeið staðið að öflugu eftirliti með verðlagi í landinu, einkum matavælaverði. Verðlagseftirlit Alþýðusambands Íslands í núverandi mynd var sett á laggirnar að ósk ríkisstjórnarinnar árið 2001 vegna meints samráðs um verðlagningu grænmetis. Ríkisstjórnin hefur ítrekað síðan undirstrikað mikilvægi Verðlagseftirlits ASÍ og nú síðast með gerð sérstaks þjónustusamnings um ítarlegt eftirlit og eftirfylgni með lækkun virðisaukaskatts af matvælum og afnámi vörugjalda þann 1. mars s.l. Starfsmenn Verðlagseftirlits ASÍ hafa unnið mjög gott starf og skapað sér traust almennings með sínum störfum og njóta einnig fulls trausts forystu sambandsins.

Vilhjálmur heldur því fram að ASÍ fái 30 mill.kr. af opinberu fé til reksturs verðlagseftirlitsins. Hið rétta er að rekstur Verðlagseftirlits ASÍ er að meginhluta á ábyrgð sambandsins, aðeins 3 mill.kr. af þessum fjármunum renna til almenns reksturs eftirlitsins, auk 1,5 mill.kr. með fyrrnefndum þjónustusamningi vegna skattkerfisbreytinganna 1. mars s.l. Þar að auki hafa aðildarsamtök ASÍ lagt þessu verkefni lið með beinum hætti.

Í bréfi Vilhjálms Egilssonar til forsætisráðherra er lagt til að tekið verði til umræðu framlög til ASÍ. Alþýðusambandið er að sjálfsögðu tilbúið að ræða ráðstöfun þessara fjármuna, líkt og ráðstöfun annarra opinberra fjármuna til hagsmunasamtaka," samkvæmt yfirlýsingu forseta ASÍ.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert