„Íslendingar hljóta að gera þá kröfu að við getum ferðast eftir þjóðvegakerfinu"

mbl.is

Bæjaryfirvöld í Vestmannaeyjum hafa enn ekki fengið svör um það hvernig staðið verði að næturferðum til Eyja í kring um komandi verslunarmannahelgi og segir Elliði Vignisson bæjarstjóri að boltinn sé hjá Vegagerðinni og Eimskipum. Hann líkir ástandinu við það að Suðurlandsbraut eða Vesturlandsvegi yrði lokað fyrir menningarnótt í Reykjavík.

Þá bendir Elliði á að Herjólfur sé hluti af þjóðvegakerfinu og því komi málið ekki aðeins Eyjamönnum við. „Íslendingar allir hljóta að gera þá kröfu að við getum ferðast eftir þjóðvegakerfinu, sama hvort við erum á leið til Vestmannaeyja, Reykjavíkur eða Egilsstaða.”

Á bæjarráðsfundi í gær var samþykkt að óska eftir því að samgönguráðherra legði fram áætlun um það hvernig samgöngum verði háttað til ársins 2010, til að komast hjá því sem Elliði kallar plástranir á áætlun Herjólfs.

Elliði segist hafa rætt við samgönguráðherra og segir að hann hafi mikinn skilning á sérstöðu Vestmannaeyjinga og að mikill uppgangur í atvinnulífinu hafi valdið vandræðum.

Verkfræðistofan VST skilar á mánudag frá sér óháðri úttekt á forsendum jarðgangna, sem er fýsilegasta lausnin á samgöngumálum til Eyja að mati Elliða, og hafa Eyjamenn gert þá kröfu að ríkið svari því hvort jarðgöng séu inni í myndinni, ella verði næsta skref að snúa sér að næstbesta kostinum, sem sé ferjulægi í Bakkafjöru.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert