Umræðan um veiðiþjófnað öfgafull

Einar Skúlason, framkvæmdastjóri Alþjóðahúss.
Einar Skúlason, framkvæmdastjóri Alþjóðahúss. mbl/Ásdís
Eftir Evu Bjarnadóttur evab@mbl.is

„Þegar umræðan fer á þetta stig þá veit maður ekki hvað getur gerst á einhverjum árbakka einhvers staðar - það getur orðið stórhættulegt,“ segir Einar Skúlason, framkvæmdastjóri Alþjóðahúss um aðgerðir Stangaveiðifélags Reykjavíkur (SVFR) gegn veiðiþjófnaði.

Morgunblaðið skýrði frá því um síðustu helgi að forsvarsmenn SVFR hefðu gripið til róttækra aðgerða gegn veiðiþjófnaði í ám á höfuðborgarsvæðinu. Segjast þeir hafa staðið á þriðja tug manna af pólsku ætterni að verki og í kjölfarið rætt við lögregluembætti á höfuðborgarsvæðinu og á Selfossi. Þeir hvetja veiðimenn til þess að taka myndir af veiðiþjófum og reyna að hindra för þeirra á meðan hringt er á lögreglu. Þá vilja veiðimennirnir beita borgaralegri handtöku, ef þurfa þykir.

Ekki forgangsatriði að kynna veiðireglur

Einar segir umræðuna vera hættulega og telur ekki nauðsynlegt að nefna þjóðerni manna í tengslum við slík mál. Slíkt ætti ekki að gera fyrr en fullsannað þykir að um menn af einu ákveðnu þjóðerni hafi verið að ræða.

„Menn hafa gleymt sér í því að eltast við útlendinga og þótt nokkrir hafi verið teknir á þessu ári ætti að vera nóg að setja upp skilti og vera með venjubundið eftirlit. Það er fullmikið að senda bréf til fyrirtækja og ætlast til þess að þau kynni sérstaklega reglur um veiði á Íslandi fyrir erlendu starfsfólki. Það er ekki forgangsatriði að kynna slíkt fyrir útlendingum sem setjast að á Íslandi, heldur t.d. frekar réttindi og skyldur þeirra á vinnumarkaði og í heilbrigðiskerfinu.“

Bréf SVFR beindist að öllum innflytjendum

Einar segir bréf SVFR hafa verið beint til vinnuveitenda innflytjenda á Íslandi, en þar hafi þjóðerni mannanna sem gripnir voru við veiðiþjófnað ekki komið fram.

„Það eru í kringum 15.000 þúsund innflytjendur á Íslandi sem Stangaveiðifélagið vill að atvinnurekendur kynni íslenskar reglur um lax- og silungaveiði. Ef tæplega þrjátíu manns hafa verið gripnir, þá þykir mér þeir gera úlfalda úr mýflugu.“

Umræðan hefur slæm áhrif á ímynd útlendinga, að mati Einars. Það gerist ósjálfrátt að menn fara að tengja saman litla veiði í sumar og veiðiþjófnað útlendinga.

Fordómar unglinga beinast gegn pólskum innflytjendum

Í sumar sá Alþjóðahús um fræðslu fyrir sumarstarfsmenn Vinnuskólans í Reykjavík og segir Einar að hann hafi orðið var við fordómar gagnvart Pólverjum á Íslandi.

„Andúðin gengur út á Pólverja, sem er hættulegt þar sem þeir eru um 2% íbúa Íslands. Ef börn heyra fordómafulla umræðu foreldra sinna við matarborðið þá er hætta á að þau níðast á börnum af pólsku ætterni í skólanum.“

Alþjóðahús hefur í hyggju að senda SVFR, ASÍ og Samtökum atvinnulífsins bréf, þar sem félögin eru hvött til þess að skoða málið í víðara samhengi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert