Stjórn SVFR furðar sig á ummælum framkvæmdastjóra Alþjóðahússins

Stjórn Stangaveiðifélags Reykjavíkur furðar sig á ummælum Einars Skúlasonar, framkvæmdastjóra Alþjóðahússins, á fréttavef Morgunblaðsins á föstudag. Hefur Bjarni Júlíusson, formaður SVFR, sent bréf til vefjar SVFR vegna málsins.

Vegna ummæla Einars sá Bjarni Júlíusson formaður SVFR tilefni til þess að senda vefnum bréf og skemmst er frá því að segja að stjórn SVFR furðar sig á ummælum Einars.

Í svari Bjarna má lesa að hann telur framkvæmdastjóra Alþjóðahúss bregðast skjólstæðingum sínum með því að gera lítið úr málinu og draga úr því að kynna lög og reglur á þessu sviði fyrir erlendu fólki sem hér býr.

Bréf Bjarna Júlíussonar:
„Stjórn Stangaveiðifélags Reykjavíkur furðar sig á ummælum Einars Skúlasonar, framkvæmdastjóra Alþjóðahússins um aðgerðir SVFR. Satt best að segja teljum við að með þessum viðbrögðum sé Einar einmitt að bregðast skjólstæðingum sínum með því að gera lítið úr málinu og draga úr því að kynna lög og reglur á þessu sviði fyrir erlendu fólki sem hér býr.

Veiðiþjófnaður eins og hér um ræðir er brot á íslenskum lögum og getur haft alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir þá sem eru gripnir við þetta athæfi, háar sektir og jafnvel allt að tveggja ára fangelsi ef sakir eru miklar. Því er ákaflega mikilvægt að fræða og upplýsa það erlenda fólk sem virðist vera langstærsti hluti hinna brotlegu. Þess vegna eru viðbrögð Einars furðuleg sé tekið mið af þeirri stöðu sem hann gegnir.

Athugasemdir Einars um að umræðan geti leitt til stórhættulegra atburða eru auðvitað tóm rökleysa. Þvert á móti, þá hefur SVFR lagt áherslu á að í allri umræðunni að veiðimenn taki þannig á málum að alls ekki komi til ofbeldis og víki undan ef í slíkt stefnir.

Hvað athugasemdir Einars um að ástæðulaust sé að greina frá þjóðerni hinna brotlegu varðar, þá er undirritaður algerlega ósammála. Hér er alls ekki um fordóma að ræða, þvert á móti þá kunnum við vel að meta hina ágætu pólsku þjóð og teljum hana upp til hópa gott fólk, drífandi og duglegt. Þeir Pólverjar sem komið hafa hingað eru flestir hverjir góð viðbót við íslenskt samfélag. Það verður hins vegar að segja hverja sögu eins og hún er og það er einfaldlega óumdeilt að þeir aðilar sem höfðu verið gripnir við þetta athæfi voru af pólsku þjóðerni.

Hér eru einfaldlega blákaldar staðreyndir á ferð. Við höfum upplýst um þjóðernið því við viljum ná til þessara aðila og skýra út fyrir þeim alvarleika þessara brota, en skýringar okkar voru í bréfi sem var á íslensku, pólsku og ensku. Við munum halda áfram að upplýsa um þjóðerni þessara þrjóta og viljum því greina frá að á föstudag voru tveir veiðiþjófar gripnir í Stóru Laxá í Hreppum. Nú voru það ekki Pólverjar heldur tveir Tékkar sem voru gripnir þar sem þeir veiddu í Sveinskeri án nokkurra leyfa og það í hvíldartímanum! Þeir verða kærðir til lögreglu.

Einar gerir lítið úr því að 30 aðilar hafi verið teknir. Hið rétta er að tilvikin eru komin vel á þriðja tuginn, stundum er aðeins einn þrjótur á ferð en stundum fleiri, við höfum gómað allt að sjö í senn.

Ætli þetta séu ekki orðnir hátt í 100 einstaklingar til þessa. Og rétt skal vera rétt, 2% hinna brotlegu hafa verið Tékkar, 98% Pólverjar. Við getum svo reynt að framreikna þessa tölu og miðað t.d. við fjölda íslenskra karlmanna. Ef við gerum ráð fyrir að um 4.000 pólskir karlmenn búi hér á landi, þá hafa um 2.5% þeirra verið gripnir við þessa vondu iðju og það á örskömmum tíma. Hlutfallslega væri þetta eins og 4.000 íslenskir karlmenn væru staðnir að verki! Undirritaður var kjörinn í stjórn SVFR 1993.

Á þessum 14 árum hafa innan við 5 tilvik komið upp af þessum toga. Á innan við þremur mánuðum á þessu ári eru tilvikin orðin 30 SEM VITAÐ ER UM ! Þarf að hafa fleiri orð um þetta?

Reyndar gerir Einar lítið úr þessum málum öllum og talar um að það sé óþarfi að kynna erlendum aðilum einhverjar veiðireglur. Hér er mikill misskilningur á ferð hjá Einari. Málið snýst nefnilega ekki um einfaldar veiðireglur, það snýst um brot á landslögum. Ég hvet Einar til að kynna sér lög nr. 61 frá árinu 2006. En kannski finnst Einari bara sum lög ekkert sérstaklega mikilvæg og lítið mál að þau séu brotin. Hann vill bara að SVFR setji upp skilti og hætti þessu brölti.

Það mætti kannski spyrja Einar hvort setja ætti skilti við hvern þeirra 2.000 merktu veiðistaða í ám SVFR? Þvílík vitleysa. Hvernig væri það að hérlendir kaupmenn hættu að kæra fólk fyrir búðarhnupl, og settu bara upp skilti (á hinum ýmsu tungumálum) um að gestum beri að greiða fyrir alla vöru. Þetta eru hvort sem er bara einhverjar búðarreglur sem óþarfi er að æsa sig yfir ... eða hvað. Nei Einar verður hér villu og reyk og færi betur að kynna sér málin. Best væri auðvitað ef hans ágæta stofnun væri tilbúin að taka upp samstarf og samvinnu til að forða hugsanlegum skjólstæðingum sínum frá kærum, sektum og jafnvel fangelsisvist, því hér er um alvarleg brot að ræða, þó Einar telji þau léttvæg. Einari skal bent á að veiðimenn sem kaupa þessi leyfi eru oft að greiða háar upphæðir fyrir aðgang að laxveiðiánum. Sem dæmi má nefna að nýlega voru þrír Pólverjar gripnir við Leirvogsá. Veiðimennirnir tveir, sem þar komu að, höfðu greitt um 150.000 krónur fyrir veiðileyfi sín þann dag, og um 2 klukkutímar fóru í það að koma hinum brotlegu undir lögregluhendur. Er það furða að veiðimönnum blöskri og vilji losna undan þessum ófögnuði. Hvað fyndist Einari ef hann væri sjálfur í sporum veiðimanns sem hefði keypt veiðileyfi fyrir háa upphæð og hann lenti í þessum hremmingum?

Veiðiþjófnaður er lögbrot og ber að fara með sem slíkt og kæra og láta mál hafa sinn gang fyrir dómstólum. Rétt eins og önnur lögbrot, hvort sem um er að ræða innbrot, þjófnað eða ölvunarakstur, öll slík mál eiga að fara sína réttu leið innan réttarkerfisins. Best væri auðvitað ef engin brot væru framin og því þarf að fræða og upplýsa útlendinga sem hér búa að athæfið er ólöglegt og við því liggja þung viðurlög. Þess vegna eru viðbrögð Einars Skúlasonar, framkvæmdastjóra Alþjóðahússins ákaflega ómálefnaleg og ekki til þess fallin að leysa þetta erfiða mál. Það er mat SVFR að ef ekkert er aðhafst, muni þetta ástand einfaldlega versna og þá fyrst er hætta á að upp úr sjóði. Þess vegna vill SVFR taka fast á þessum málum – núna !
Bjarni Júlíusson
Formaður Stangaveiðifélags Reykjavíkur"

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert