„Álitamál hvort göng til Vestmannaeyja séu réttlætanleg"

Landeyjasandur með Vestmannaeyjar í baksýn.
Landeyjasandur með Vestmannaeyjar í baksýn. mynd/suðurland.is

Verkfræðistofa Sigurðar Thoroddsen hf. hefur lokið mati á kostnaði við gerð jarðganga sem vegtengingu milli Vestmannaeyja og Landeyja. Niðurstaða matsins er sú að tæknilega sé mögulegt að gera slík göng og að kostnaðurinn verði líklega á bilinu 50 til 80 milljarðar króna. Áhætta er hins vegar talin mikil.

Fram kemur í fréttatilkynningu samgönguráðuneytisins um málið að Vegagerðin hafi falið Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen hf. að leggja mat á kostnað við gerð jarðganga milli lands og Eyja í apríl og að VST hafi fengið ýmsar skýrslur og gögn sem unnin hafa verið um málið á síðustu misserum og árum, bæði fyrir samgönguyfirvöld og Ægisdyr, áhugafélag um gerð jarðganga milli lands og Eyja.

Fram kemur í skýrslu VST að miðað við 18 km göng sem yrðu steypufóðruð fyrstu þrjá kílómetrana frá Vestmannaeyjum sé kostnaður talinn verða 52 milljarðar króna. Verði öll göngin steypufóðruð sé kostnaður hins vegar áætlaður 80 milljarðar króna. Um þriðjungur þessa kostnaður er vegna óvissu, kostnaðar við hönnun og eftirlit og kostnaðar verkkaupa af vöxtum á byggingartíma, rannsókna og fleiri atriða.

Skýrsluhöfundar segja einnig að verði ákveðið að vinna áfram að málinu verði næstu skref ítarlegri jarðfræðilegar og jarðtæknilegar rannsóknir sem miði að því að draga úr óvissu við verkefnið. Rannsaka þurfi berglög norðan við Heimaey og aðstæður á Landeyjasandi og afla þurfi miklu meiri upplýsinga um berglög á fyrirhugaðri gangaleið. Eru slíkar rannsóknir taldar geta kostað allt frá 115 milljónum króna til 275 milljóna.

Þá segir í niðurlagi samantektarinnar: ,,Niðurstaða mats okkar er eins og að framan segir að tæknilega sé mögulegt að gera veggöng milli lands og Eyja og að kostnaðurinn verði líklega á bilinu 50 til 80 milljarðar króna. Á hinn bóginn er álitamál sem áhöld eru eða ættu að vera um hvort nokkurn tímann geti verið réttlætanlegt að grafa og reka þetta löng jarðgöng djúpt undir sjó á jafn jarðfræðilega virku svæði og Vestmannaeyjasvæðið vissulega er og dæmin sanna.”

Fjallað verður um skýrsluna á fundi ríkisstjórnarinnar næstkomandi föstudag og í framhaldi af því verður hún gerð opinber.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert