Bæjarráð Snæfellsbæjar lýsir yfir þungum áhyggjum af niðurskurði

Bæjarráð Snæfellsbæjar lýsir þungum áhyggjum yfir þeirri ákvörðun sjávarútvegsráðherra að skera niður aflaheimildir í þorski á næsta fiskveiðiári. Þetta kemur fram í ályktun frá bæjarráðinu.

„Það er alveg ljóst að þessar aðgerðir hafa mikil neikvæð áhrif á samfélagið hér í Snæfellsbæ og tekjumissir samfélagsins verður rúmir 2 milljarðar, sbr. skýrslu Atvinnuráðgjafar Vesturlands.

Bæjarráð Snæfellsbæjar treystir því að Ríkisstjórn Íslands muni koma með mótvægisaðgerðir til að draga úr þeim gríðarlega miklu neikvæðu áhrifum sem skerðing þorskkvótans hefur í bæjarfélaginu. Bæjarráð lýsir því jafnframt yfir að Snæfellsbær er tilbúinn til að vinna með ríkisstjórninni að tillögum til aðgerða sem gætu dregið úr þeim afleiðingum sem fyrirsjáanlegar eru ef ekkert verður að gert og óskar eftir fundi með fulltrúum ríkisstjórnarinnar eins fljótt og hægt er.

Bæjarstjórn fagnar þeirri ákvörðun ríkisstjórnarinnar að tryggja fjármagn til að ljúka framkvæmdum á Fróðárheiði á árunum 2009-10".

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert