Árásarmaðurinn svipti sig lífi; fannst látinn á Þingvöllum

Frá fréttamannafundi lögreglunnar síðdegis.
Frá fréttamannafundi lögreglunnar síðdegis. mbl.is/Sverrir

Maður sem mun hafa ráðið 35 ára karlmanni bana með riffli skömmu fyrir hádegi í dag í Reykjavík fannst látinn í Almannagjá á Þingvöllum laust upp úr klukkan eitt. Mun hann hafa svipt sig lífi með sama skotvopni og skilið eftir bréf til lögreglunnar þar sem staðfest voru tengsl milli málanna.

Þetta kom fram á blaðamannafundi hjá lögreglunni nú í dag.

Lögreglan greindi ennfremur frá því, að eftir að fyrir lá hvert fórnarlambið var hafi vaknað grunur um hver árásarmaðurinn hefði verið, því tengsl hafi verið á milli þeirra. Fórnarlambið hafði nýverið tekið upp samband við fyrrverandi eiginkonu árásarmannsins.

Lögreglan segir að árásarmaðurinn hafi skotið fórnarlambið í brjóstið þar sem það var við bíl sinn á Sæbraut við mót Kringlumýrarbrautar að skipta um sprungið dekk. Fórnarlambið komst upp í aðvífandi sendiferðabíl, og fór ökumaður hans með það að sundlauginni í Laugadal, að því er talið er til að komast í síma til að hafa samband við lögreglu og sjúkralið.

Þegar sjúkrabíll kom á staðinn var fórnarlambið meðvitundarlaust og hófust þá þegar lífgunartilraunir. Þeim var fram haldið á slysadeild, auk þess sem gerð var aðgerð á manninum. Ása Einarsdóttir, vakthafandi læknir á slysadeildinni, staðfesti í samtali við mbl.is að maðurinn hefði verið úrskurðaður látinn laust fyrir klukkan eitt.

Lögreglan greindi frá því nú síðdegis að þegar fyrir lá hver hinn látni var hafi kviknað grunur um hver kynni að hafa ráðið honum bana. Hinn látni hafði nýverið tekið upp samband við fyrrverandi konu hins grunaða.

Um svipað leyti og staðfest var að sá sem fyrir árásinni varð væri látinn hefði borist tilkynning um að maður hefði fundist látinn á Þingvöllum. Þar hafi verið um að ræða hinn grunaða, og hafði hann svipt sig lífi með sama skotvopni og hann mun hafa ráðið hinum mannum bana með, 22 kalíbera riffli.

Í bréfi til lögreglunnar, sem sá er svipti sig lífi hafði skilið eftir í bíl sínum, staðfesti hann grun lögreglunnar um hver tengsl væru á milli hans og fórnarlambsins.

Lögreglan sagði á blaðamannafundi í dag að málið teldist upplýst. Hvorugur hinna látnu hafði komið við sögu hjá lögreglunni áður. Lögreglan sagðist ekki telja ástæðu til að ætla að áfengi eða fíkniefni hefðu komið við sögu. Maðurinn sem svipti sig lífi á Þingvöllum var á fertugsaldri.

Frá vettvangi á Sæbraut í dag.
Frá vettvangi á Sæbraut í dag. mbl.is/Sverrir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert