Banaslys á Biskupstungnabraut

mbl.is

Banaslys varð á móts við verslunina Minni-Borg í Grímsnesi á áttunda tímanum í gærkvöldi. Slysið varð með þeim hætti að ökumaður bifhjóls féll af hjóli sínu í árekstri við jeppa á Biskupstungnabraut. Var hann fluttur á Slysadeild Landspítalans-háskólasjúkrahúss í Fossvogi með sjúkrabifreið en var úrskurðaður látinn við komuna þangað, samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Selfossi.

Bifhjólamaðurinn ók til suðvesturs og var í samfloti með öðrum bifhjólamönnum. Bifhjólamaðurinn lenti á hægra afturhorni jeppabifreiðar sem kom á móti og var beygt í átt að versluninni, samkvæmt upplýsingum frá lögreglu.

„Lögreglan á Selfossi rannsakar þetta umferðarslys. Fulltrúi rannsóknarnefndar umferðarslysa var kallaður til. Tildrög slyssins eru ekki að fullu ljós og því er afar mikilvægt að allir þeir sem veitt geta upplýsingar um slysið og aðdraganda gefi sig fram við lögregluna á Selfossi í síma 480 1010. Af þeirri ástæðu er ekki hægt að veita frekari upplýsingar um slysið," að því er segir í tilkynningu frá lögreglu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert