Trúlofaði sig á Breiðafirði

Eftir Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Simon Kirby, „njósnari" Bolton og sonur Peggy og George Kirbys, fyrrverandi þjálfara ÍA, notaði tækifærið í Íslandsferð með fjölskyldunni og trúlofaðist Tony, unnustu sinni, á ferjunni Baldri á siglingu á Breiðafirði.

George Kirby var sigursæll knattspyrnuþjálfari á Skaganum. Hann var fyrst þjálfari Skagamanna 1974 og 1975 og urðu þeir Íslandsmeistarar á báðum tímabilum auk þess sem þeir léku til úrslita í bikarkeppninni bæði árin. Ennfremur fögnuðu þeir fyrsta sigri ÍA á heimavelli í Evrópukeppni.

Kirby var fjarri góðu gamni 1976 en kom aftur á Skagann ári síðar og landaði Íslandsmeistaratitlinum í þriðja sinn, en 1978 varð ÍA bikarmeistari í fyrsta sinn og það undir hans stjórn. Kirby tók við liði ÍA í þriðja sinn 1982 og enn varð það bikarmeistari. Hann var síðan með liðið 1990 þegar það féll í 2. deild.

Skagamenn hafa haldið góðu sambandi við fjölskylduna. Peggy Kirby missti mann sinn árið 2000 og hefur ekki komið til Íslands síðan fyrr en nú. Af því tilefni héldu forystumenn ÍA og meistarar undir stjórn Kirbys hóf fjölskyldunni til heiðurs í Byggðasafninu á Görðum og leystu mæðginin út með gjöfum.

Simon Kirby starfar hjá enska úrvalsdeildarliðinu Bolton Wanderes og er hlutverk hans að finna nýja leikmenn. Hann var á barnaskólaaldri, þegar hann kom fyrst til Íslands með foreldrum sínum, og innsiglaði hrifningu sína á landi og þjóð með því að trúlofast á Breiðafirði.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert