Yfirlýsing frá Reyni Traustasyni

Reynir Traustason,
Reynir Traustason, mbl.is/Árni Sæberg

Reynir Traustason, ritstjóri Mannlífs, hefur sent frá sér yfirlýsingu undir yfirskriftinni Kvótapeningar til London. Þar segist hann vísa því til föðurhúsanna sem kemur fram í yfirlýsingum þeirra Kristins og Elvars Aðalsteinssonar, en þeir hafa báðir sent frá sér yfirlýsingu vegna greinar Reynis um þá og fjölskyldu þeirra á Eskifirði.

„Kvótapeningar til London
Vegna yfirlýsinga þeirra Kristins og Elvars Aðalsteinssona skal áréttað að þær 3500 milljónir krónur sem þeir hurfu með frá Eskifirði eru að langmestu leyti kvótaauður sem Aðalsteinn Jónsson skóp á farsælli tíð sinni sem aðaleigandi Hraðfrystihúss Eskifjarðar. Afkomendurnir segja í yfirlýsingum sínum vegna greinar í Mannlífi að umfjöllunin sé byggð á skáldskap eða í versta falli gróusögum. Þessu er vísað til föðurhúsanna. Sú staðreynd blasir við að þeir Elfar og Kristinn stukku frá borði með kvótaauð en eftir standa baráttuhjónin Þorsteinn Kristjánsson og Björk Aðalsteinsdóttir sem tóku að sér, ásamt Skeljungi og Tryggingamiðstöðinni, að greiða bræðurna út og berjast nú við að halda forræði fyrirtækisins á Eskifirði.

Ítrekað skal að hvergi er hallað á Aðalstein Jónsson í greininni en rakin er saga þeirra sem kusu að hverfa frá föðurarfleifð sinni með fulla vasa fjár. Hvergi er sagt að kvóti Eskju hafi verið seldur en því er lýst að verið er að leita leiða til að rétta við fjárhag fyrirtækisins en núverandi eigendur standa undir gjaldinu vegna útgöngu bræðranna. Því er ekki haldið fram í greininni að bræðurnir í London hafi aðhafst neitt það sem er ólöglegt en það kann að vera matsatriði hversu siðlegt það er gagnvart íbúum á Eskifirði og starfsfólki Eskju til lands og sjávar. Mannlíf stendur við úttekt sína.

Flateyri 29. júlí 2007. Reynir Traustason, ritstjóri Mannlífs."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert