Nýsköpunarmiðstöð Íslands tekin til starfa

Nýsköpunarmiðstöð Íslands tók til starfa í dag, en hún varð til við samruna Iðntæknistofnunar og Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins. Fram kemur í tilkynningu að þess sé vænst að sameinuð starfsemi verði lyftistöng á sviði nýsköpunar og tækni.

Þar segir jafnframt að það sé táknrænt fyrir áherslur Nýsköpunarmiðstöðvar á atvinnuþróun að fyrsti starfsdagur hennar sé á Ísafirði.

Auðkenni Nýsköpunarmiðstöðvar var afhjúpað í Edenborgarhúsinu á Ísafirði í dag. Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra ávarpaði gesti og Þorsteinn Ingi Sigfússon, forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvarinnar, flutti erindi um starfsemina á næstunni. Auk þess fjölluðu aðrir starfsmenn Nýsköpunarmiðstöðvar um verkefni og árangur þeirra.

Veruleg samlegðaráhrif verða við sameiningu þessara tveggja stofnana á sviði rannsókna og tækni og einnig þjónustu við sprotafyrirtæki og frumkvöðla. Nýsköpunarmiðstöð Íslands hefur nú möguleika á að samtvinna rannsóknar- og þróunarstarf við starfsemi á sviði viðskipta í ríkari mæli en verið hefur hér á landi.

Hlutverk Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands samkvæmt lögum, sem samþykkt voru á Alþingi síðastliðið vor, er að styrkja samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs og auka lífsgæði. Í því felst meðal annars að miðla þekkingu og veita stuðningsþjónustu fyrir frumkvöðla og sprota- og nýsköpunarfyrirtæki og að stunda tæknirannsóknir, þróun, greiningar, prófanir, mælingar og vottanir. Nýsköpunarmiðstöð Íslands er einnig ætlað að annast stjórnsýsluverkefni sem stofnuninni eru falin samkvæmt lögum, stjórnvaldsfyrirmælum eða ákvörðun ráðherra og taka mið af stefnu Vísinda- og tækniráðs í starfsemi sinni á hverjum tíma.

Nýsköpunarmiðstöð Íslands byggir á forsögu tveggja stofnana og nýjum hugmyndum um hlutverk nýsköpunar í samfélaginu. Stofnar miðstöðvarinnar eru þrír – allar hafa skipt sköpum í þróun íslensks tæknisamfélags:

  • Á Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins hefur verið unnið mikilvægt brautryðjandastarf á sviði byggingartækni undanfarin ár.
  • Á Iðntæknistofnun hefur verið unnið öflugt starf á sviði rannsókna og þróunar svo sem á sviðum líftækni, örtækni, matvæla og efnistækni.
  • Á sviði nýsköpunar fyrir frumkvöðla og sprotafyrirtæki hefur starfsemi IMPRU skilað miklum árangri.

Starfsemin mun í náinni framtíð felast í rekstri Nýsköpunar- og sprotamiðstöðvar ásamt því að sinna verkefnum Íslenskra Tæknirannsókna. Starfsmenn verða um 80 talsins, en að auki er gert ráð fyrir hundruð nemenda í ýmiss konar námi sem tengjast munu hinum ýmsu verkefnum. Nýsköpunarmiðstöð Íslands er að hluta til fjármögnuð af ríkissjóði en innlendir og erlendir rannsóknarstyrkir og útseld verkefni standa undir meirihluta af tekjum hennar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert