Vísbendingar um að lundavarp í Eyjum hafi misfarist

Vísbendingar eru um að lundavarp hafi misfarist í Vestmannaeyjum í ár en myndir, sem teknar hafa verið í lundaholum nú í sumar, sýna að mikið er um að lundinn beri egg út úr holunum.

Fram kemur á fréttavefnum Suðurlandi.is, að Marinó Sigursteinsson, pípulagningameistari, hafi undanfarin ár notað skolpmyndavél sína til að mynda lundaholur í Vestmannaeyjum. Frá árinu 2002 hafi hann myndað lundaholurnar frá því að pysjan klekst út en í ár byrjaði hann fyrr í samstarfi við starfsmenn Náttúrustofu Suðurlands.

Marinó og félagar hafa kannað lundaholur í Elliðaey, Sæfelli, Kervíkurfjalli og í Stórhöfða. Búið er að fylgjast með sömu holunum í nokkurn tíma og samanburðurinn á milli athuganna sýnir að mikið er um að lundinn beri út egg.

„Í Elliðaey fórum við t.d. 22. júlí síðastliðinn. Þá kíktum við í 40 holur. Í 22 þeirra voru egg og við sáum 14 pysjur. 28. júlí var staðan í sömu holum þannig að við sáum 15 unga og aðeins 13 egg en í tveimur holunum sá ég ekki hvort það var egg eða pysja sem fuglinn lá á. En þarna hefur eggjunum fækkað gríðarlega," sagði Marinó við blaðamann Frétta í Vestmannaeyjum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert