Metþátttaka í mýrarboltamóti

Mýrarbolti er ekki sérlega hreinleg íþrótt.
Mýrarbolti er ekki sérlega hreinleg íþrótt. mynd/bb.is

Alls taka rúmlega 270 manns þátt í Evrópumeistaramóti í mýrarbolta sem hófst í Tungudal við Ísafjörð í dag. Mótið hefst á riðlakeppni auk þess sem keppt verður í aukagreininni drulluteygjunni. Mýrarboltinn verður nú haldinn í fjórða sinn en þetta er í fyrsta sinn sem mótið er haldið um verslunarmannahelgina.

Mótið hefur farið stigvaxandi með ári hverju en Ísfirðingar kynntust íþróttinni í gegnum viðburðaskiptaverkefnið Usevenue sem Ísafjarðarbær er þátttakandi.

Undanfarna daga hefur verið unnið að því að undirbúa mótsvæðið m.a. með því að vökva vellina svo þeir verði sem forugastir. Núverandi Evrópumeistarar í íþróttinni eru Englarnir og Gleðisveit Gaulverjahrepps.

Á morgun verður háð úrslitakeppni mýrarboltans og um kvöldið verður haldið lokahóf í Edinborgarhúsinu. Þar fer fram verðlaunaafhending og keppnin verður rifjuð upp með myndasýningu. Að loknum hátíðarkvöldverði mun bolvíska hljómsveitin Húsið á sléttunni halda uppi fjörinu.

Upphaf þessarar óvenjulegu íþróttar má rekja til skóglendis Norður-Finnlands þar sem er að finna talsverð mýrlendi sem myndast á auðum blettum í skóginum eftir að tré hafa verið höggvin. Á einu slíku svæði var byrjað að spila knattspyrnu á litlum velli. Í byrjun var þetta eingöngu til skemmtunar en þróaðist fljótlega yfir í keppni þar sem lítil mót voru haldin á svæðinu. Fyrir fjórum árum var byrjað að skipuleggja stærra mót í kringum þessa sérstæðu íþróttagrein sem í dag er orðið stór viðburður í Norður-Finnlandi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert