Eykt vill byggja við Akranes

Byggingafélagið Eykt hefur sent bæjaryfirvöldum á Akranesi bréf þar sem félagið lýsir yfir áhuga á að kaupa 50 hektara land við Miðvog undir nýbyggingar. Gísli S. Einarsson, bæjarstjóri Akranesbæjar, segir að málið sé á frumstigi en um sé að ræða stóran hluta framtíðarbyggingarlands bæjarins.

Hugmyndir fyrirtækisins eru að kaupa landsvæði sunnan og austan við Miðvog af kaupstaðnum. Þar myndi það síðan deiliskipuleggja og reisa íbúðabyggð, verslun og þjónustu, annast gatnagerð og mögulega koma að rekstri og byggingu skóla og leikskóla. Allt yrði unnið í samráði við bæjaryfirvöld. Gerir byggingarfyrirtækið ráð fyrir að uppbygging svæðisins tæki 10 til 12 ár.

Gísli segir að bæjarráð hafi á fundi sl. fimmtudag samþykkt að boða forráðamenn Eyktar til nánari viðræðna við bæjarstjórn og skipulags- og byggingarnefnd. "Við bjóðum að sjálfsögðu forráðamönnum Eyktar að kynna málið fyrir öllum þeim sem málið varðar en fyrr er ekkert hægt að segja um málið. Þetta er þó þannig að Akranes á mjög takmarkað byggingarland og það má segja að okkur vanti það tilfinnanlega en þetta eru hugmyndir sem verður að skoða."

Skoðað vandlega

Gísli segir að málið sé ekki komið á það stig að rætt hafi verið um hversu margir íbúar myndu búa á svæðinu. Hann segir að þó megi áætla að koma megi fyrir helmingi íbúafjölda bæjarins í dag fyrir á þessu svæði, ásamt allri þjónustustarfsemi og verslunum.

"Þetta er ákveðin framtíðarsýn. Hér á sér stað mikil fjölgun íbúa enda mikið af atvinnutækifærum sem bjóðast í og við Akranes. Íbúum hefur fjölgað um 3,6% það sem af er árinu." Hann segir að ekki hafi verið tekin nein efnislega afstaða til málsins en það verði skoðað vandlega.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert