Sammála um að bæta þurfi ástandið í miðborginni

Stefán Eiríksson, lögreglustjóri, og Steinþór Hilmarsson, lögreglumaður, á gangi á …
Stefán Eiríksson, lögreglustjóri, og Steinþór Hilmarsson, lögreglumaður, á gangi á Rauðarárstíg. mbl.is/Júlíus

Stefán Eiríksson, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins, segir að engin vafi sé á því að allir hagsmunaaðilar og þeir sem ábyrgð bera séu sammála um að bæta þurfi ástandið í miðborginni og það þurfi að gerast með samstilltu átaki þeirra aðila sem að málinu koma.

Stefán átti fund með borgarráði í morgun en hann skrifaði grein í Morgunblaðið á mánudag þar sem hann lýsti ástandinu í miðborg Reykjavíkur um helgar.

Í grein Stefáns kom meðal annars fram að ásýnd miðborgarinnar og gesta hennar síðla nætur um helgar er vægast sagt ömurleg. Hann benti á í greininni að hlutfall ofbeldisbrota sem framin eru í miðborginni frá miðnætti til kl. sex að morgni hafi fjölgað.

Stefán segir að meta beri „reynsluna af löngum afgreiðslutíma skemmtistaða í miðborginni og breyta honum, ef matið leiðir í ljós að þar hafi verið gengið of langt. Borgaryfirvöld þurfa að ákveða hvort beina eigi starfsemi dansstaða og næturklúbba á önnur svæði í höfuðborginni. Meiri dreifing skemmtistaða um borgina myndi án vafa bæði bæta ásýnd miðborgarinnar og auðvelda lögreglu hennar störf."

Stefán segir að borgarstjórn og borgarstjórn hafi þegar lýst því yfir að það þurfi að endurskoða ákvæði um opnunartíma skemmtistaða. „Sú umræða hlýtur að fara af stað hjá borginni því það er hún fyrst og fremst sem ber ábyrgð á afgreiðslutímanum. Þó svo að við gefum út leyfin þá getur borgin sett skilyrði um að tiltekinn veitingastaður eða skemmtistaður á tilteknum stað sé einungis opinn í tiltekinn tíma. Þannig að þessi umræða mun væntanlega halda áfram á vettvangi borgaryfirvalda."

Stefán segir að ekki þurfi einungis að horfa á opnunartíma heldur einnig fjölda þess fólks sem kemur á lítinn blett í borginni um hverja helgi. Það skapar þennan vanda sem er við að etja segir Stefán og bætir við að ef dreifingin væri meiri þá væri vandinn ekki sá sami.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert