Lýsa yfir áhyggjum af starfsmannaskorti á leikskólum

Mjög marga starfsmenn vantar á leikskóla borgarinnar sem og í …
Mjög marga starfsmenn vantar á leikskóla borgarinnar sem og í grunnskóla. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Ályktun frá Félagi leikskólakennara

Á fundi stjórnar Félags leikskólakennara þann 16. ágúst 2007 var til umræðu starfsmannahald í leikskólum. Eftirfarandi ályktun var samþykkt:

„Stjórn Félags leikskólakennara lýsir áhyggjum yfir því ástandi sem enn og aftur blasir við í mörgum leikskólum, aðallega á höfuðborgarsvæðinu. Það er staðreynd, að þegar atvinnuástand er gott, þá gengur illa að ráða kennara og aðra starfsmenn leikskóla. Þetta ástand ógnar starfsemi leikskólanna sem er viðkvæm og mikilvæg í lífi ungra barna. Að auki eykur starfsmannaskortur álag á stjórnendur og starfsmenn sem fyrir eru og veldur foreldrum áhyggjum og kvíða.

Stjórnin hvetur sveitarfélög til að grípa til allra mögulegra ráða til að laða til sín starfsfólk og umbuna þeim sem taka á sig aukið álag umfram venjubundnar starfsskyldur. Ein leið er að nýta ákvæði bókunar með kjarasamningi Launanefndar sveitarfélaga og Kennarasambands Íslands v/Félags leikskólakennara um svokallaðar TV einingar (tímabundin viðbótarlaun). Þær eru hugsaðar til að mæta tímabundnu álagi sem m.a. getur skapast út af markaðs- og samkeppnisaðstæðum. Ljóst er að slíkt á við þegar aukið álag verður vegna þess að ekki tekst að ráða fólk í störfin. Stjórnin fagnar öllum ákvörðunum sveitarfélaga í þessum efnum en bendir jafnframt á nauðsyn þess að viðbótarfjármagn verður að koma til, til að hægt sé að standa straum að þeim kostnaði sem af því hlýst.

Stjórn félagsins leggur áherslu á, að þennan vanda sem upp kemur hvað eftir annað, þarf að leysa. Hann er því miður ekki einskorðaður við leikskóla heldur á við um fleiri vinnustaði. Stéttarfélög og atvinnurekendur verða að taka höndum saman og leita framtíðarlausna til að gera þessi störf samkeppnishæf á vinnumarkaði," að því er segir í ályktun Félags leikskólakennara.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert