Verðlækkun hjá 4% veitingahúsa frá því í mars

mbl.is/Guðmundur Rúnar

Í könnun sem Neytendastofa hefur gert á verði á veitingahúsum kemur í ljós að einungis 4% veitingahúsa hafa lækkað verð frá því að virðisaukaskattur var lækkaður þann 1. mars sl. Hjá 28% veitingahúsa hefur verð hækkað frá því í mars. Hjá 68% veitingahúsa hefur verð staðið í stað. Af gögnum Neytendastofu má ráða að þau veitingahús sem hafa nú lækkað verð séu í raun að skila verðlækkunum sem ætla má að virðisaukaskattslækkunin 1. mars hefur leitt til.

Samkvæmt tilkynningu frá Neytendastofu kemur fram að í þessari könnun kemur í ljós að verð hefur hækkað hjá alls 28% veitingahúsa frá því að könnun Neytendastofu var gerð í mars. Í ljós kemur að margir veitingastaðir í þessum hópi hafa hækkað alla rétti. Í öðrum tilvikum hefur verð á einstökum réttum haldist óbreytt en verð þó almennt hækkað. Meðaltalshækkun á verði þeirra rétta sem könnunin tók til í þessum hópi veitingahúsa er allt frá 2% og upp í 25%, en meðaltalshækkun alls hjá öllum veitingahúsum í þessum hópi nemur 10%.

Í könnuninni kemur fram að verð frá því í könnun sem gerð var í mars sl. hefur staðið í stað hjá 68% veitingahúsanna. Könnunin sýnir að alls 34% veitingahúsa í þessum hópi hafa ekki breytt verði frá því í febrúar. Verð hjá þeim er því óbreytt eftir að virðisaukaskattsbreytingin tók gildi 1. mars sl.

Samkvæmt þjónustusamningi við viðskiptaráðuneytið dags. 17. janúar 2007 tók Neytendastofa að sér að hafa eftirlit með því hvort verð á veitinga- og gistihúsum lækkaði til samræmis við lækkun á virðisaukaskatti sem tók gildi 1. mars 2007. Í samræmi við ákvæði samningsins var gerð könnun á verði veitingahúsa í mars og skilaði Neytendastofa viðskiptaráðuneytinu samantekt um niðurstöður sínar hinn 17. apríl sl.

Í ljósi ábendinga sem Neytendastofu hafa borist á undanförnum mánuðum var könnun gerð á ný í ágúst 2007 á verðbreytingum hjá veitingahúsum frá þeim tíma er könnun var síðast gerð.

Könnun Neytendastofu frá því í mars sl. tók alls til 78 veitingahúsa en heildarfjöldi veitingahúsa í þessari könnun er 74 veitingahús. Ástæða þess er sú að 3 veitingahúsum hefur verið lokað eða starfsemi hætt en upplýsingar frá einu fyrirtæki eru ósamanburðarhæfar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert