Vissu að kostnaðurinn yrði meiri

Grímseyjarferja
Grímseyjarferja mbl.is/Sverrir Vilhelmsson
Eftir Þórð Snæ Júlíusson - thordur@bladid.net

Fulltrúar samgönguráðuneytis, fjármálaráðuneytis og Vegagerðarinnar vissu að ný Grímseyjarferja kostaði mun meira en heimild var til áður en skipið var keypt.

Í fundargerð sem Blaðið hefur undir höndum segir orðrétt að „fyrir virðist liggja að samanlagður kostnaður vegna nýrrar Grímseyjarferju geti numið 250 milljónum króna." Umræddur fundur var haldinn í Vegagerðinni þann 25. nóvember 2005, sex dögum áður en skipið var keypt. Undir fundargerðina kvitta Jón Rögnvaldsson vegamálastjóri, Gunnar Gunnarsson aðstoðarvegamálastjóri, Jóhann Guðmundsson, skrifstofustjóri í samgönguráðuneytinu, og Þórhallur Arason frá fjármálaráðuneytinu. Ennfremur segir í fundargerðinni að „nokkuð ljóst [er] að allmargir mánuðir munu líða þar til skipið er tilbúið og hægt verður að setja eldra skip í sölumeðferð. Heildardæmið verður því engan veginn ljóst fyrr en að þessum tíma loknum."

Þegar ríkisstjórn Íslands veitti heimild til kaupanna í apríl 2005 var kostnaðurinn sagður vera 150 milljónir króna. Í fundargerðinni er sérstaklega vísað til þeirrar samþykktar en samt sem áður ákveðið, án frekara samráðs við ríkisstjórnina, að viðbótarfjármögnun kaupanna verði af ónotuðum heimildum Vegagerðarinnar. Hefði hún ekki svigrúm til að nýta ónotaðar fjárheimildir myndi fjármálaráðuneytið heimila yfirdrátt fyrir því sem vantaði upp á.

Ríkisendurskoðun gerði alvarlegar athugasemdir við þessa ákvörðun í svartri skýrslu sinni um málið og taldi hana á engan hátt standast ákvæði fjárreiðulaga. Árni Mathiesen fjármálaráðherra sagði í Blaðinu í gær að þessar aðfinnslur Ríkisendurskoðunar væru rangar og að beinlínis væri gert ráð fyrir svona millifærslum á fjármunum.

Fjárlaganefnd Alþingis hefur þrátt fyrir þau orð ráðherrans boðað til fundar næstkomandi fimmtudag. Gunnar Svavarsson, formaður nefndarinnar, staðfestir að boðað hafi verið til sérstaks fundar um mál Grímseyjarferjunnar á þeim degi.

„Þar verða kallaðir á fund fjárlaganefndar fulltrúar Vegagerðarinnar, fulltrúar samgönguráðuneytisins og fulltrúar fjármálaráðuneytisins. Hver í sínu lagi."

Nánar í Blaðinu

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert