Tekist á í menntaráði

Ráðhús Reykjavíkur.
Ráðhús Reykjavíkur. mbl.is/Sverrir Vilhelmsson

Tekist var á í menntaráði Reykjavíkurborgar í dag um tillögur Vinstri-grænna, Samfylkingar og F-lista m.a. um að nýta fjármagn sem til fellur þegar ekki tekst að ráða í stöður innan skóla í þágu kennara og starfsfólks. Fulltrúar minnihlutans sökuðu meirihlutann um að stunda gamaldags skotgrafapólitík, en fulltrúar meirihlutans segja sorglegt að fulltrúar minnihlutans setji málið í pólitískt samhengi, sem eigi ekki við í þessu samhengi.

Í tillögum minnihlutans var lagt til að skólastjórnendur nýti það fjármagn sem til fellur þegar ekki næst að ráða í stöður, í þágu kennara og starfsfólks skólans þar til úr leysist. Með því var hvatt til að þær bókanir og ákvæði í kjarasamningi kennara sem nýtast þeim þegar um starfsmannaeklu er að ræða, verði nýtt. Þessari tillögu var frestað og sömuleiðis annarri þar sem hvatt var til þess að skoðun á starfsheitaröðun kennara sem kveðið er á um í gildandi kjarasamningi grunnskólakennara færi fram nú þegar, í ljósi þess að samningur kennara rennur út í vor.

Eftir að tillögunum var frestað bókaði minnihlutinn að það ylli vonbrigðum og að þar með nýtti meirihluti ráðsins ekki augljóst tækifæri til að standa með kennurum.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks svöruðu því til í bókun að flutningsmönnum tillögunnar væri fullkunnugt um að mannauðsstjóri Reykjavíkurborgar leiddi nú þegar starfshóp sem falið hefði verið að fara yfir starfsmannamál og leggja fram tillögur til úrbóta, því væri eðlilegt að fresta tillögunum þar sem þær fjölluðu um sama efni og starfshópurinn ynni að.

Fulltrúar minnihlutans sökuðu þá meirihlutann um að stefna býnu máli í ágreining með því að vísa tillögunum ekki til starfshópsins, en meirihlutinn sagði sorglegt að minnihlutinn reyndi að setja málið í pólitískt samhengi, sem væri óviðeigandi í ljósi stöðu ráðningamála kennara.

Í fréttatilkynningu sem minnihluti menntaráðs hefur sent frá sér segir að það veki athygli að bæði í leikskólaráði og í ÍTR hafi gengið eftir að ná þverpólitískri samstöðu um að leita leiða í gildandi kjarasamningum og innan samþykkts launaramma til að greiða starfsfólki fyrir það álag sem það býr við meðan skortur er á starfsfólki. Meirihluti ráðsins hafi í stað þess að fara sömu leið ákveðið að leggja meira upp úr gamaldags skotgrafapólitík.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert