Meirihluti presta hlynntur heimild til að staðfesta samvist

Frá prestastefnu á Húsavík fyrr á þessu ári.
Frá prestastefnu á Húsavík fyrr á þessu ári. Ljósmynd Hafþór

Í könnun, sem nýlega var gerð meðal starfandi presta Þjóðkirkjunnar um staðfesta samvist, kemur fram að 65 prósent svarenda eru mjög eða frekar hlynnt því að prestum Þjóðkirkjunnar verði veitt heimild til að framkvæma staðfesta samvist. Svipaður fjöldi telur líklegt að hann myndi nýta sér slíka heimild.

Samkvæmt upplýsingum frá Biskupsstofu var aðdragandi þess að ráðist var í könnunina sá, að á prestastefnu í apríl kom fram tillaga þess efnis að prestum Þjóðkirkjunnar, sem það kysu, yrði heimilað að vera lögformlegir vígslumenn staðfestrar samvistar á grundvelli álits kenningarnefndar Þjóðkirkjunnar.

Tillögunni var vísað til kenningarnefndar en Prestastefna samþykkti jafnframt ósk um að könnun um hug presta til þessarar þjónustu yrði framkvæmd.

Í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar frá maí 2007 er talað um að veita trúfélögum heimild til að staðfesta samvist samkynhneigðra. Því þótti rétt að miða spurningar við það. Með hliðsjón af stjórnarsáttmálanum var spurt: Ert þú hlynnt(ur) eða andvíg(ur) því að Kirkjuþing samþykki að prestum Þjóðkirkjunnar verði veitt sú heimild?

Tæplega 53% svarenda voru mjög hlynnt, 12% frekar hlynnt. Rúm 20% svarenda voru mjög andvígir og 6,5% frekar andvígir. Þá var spurt: Hversu líklegt eða ólíklegt er að þú munir nýta þér slíka heimild? 64% töldu það mjög eða frekar líklegt, en 27% mjög eða frekar ólíklegt.

Tæplega 80% kvenpresta í hópi svarenda eru mjög eða frekar hlynnt því að Kirkjuþing samþykki að prestum Þjóðkirkjunnar verði veitt sú heimild og rúmlega 59% karlpresta. Prestar sem hafa unnið 15 ár eða skemur eru bæði hlynntari þessu og líklegri til þess að nota heimildina.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert