Áfengisdauðum verði sinnt í miðborginni

Æskilegt er að komið verði upp aðstöðu í miðborg Reykjavíkur á nóttunni um helgar til að hlúa að áfengisdauðu fólki til að lögreglan geti einbeitt sér að löggæslu, en þurfi ekki að eyða tíma í að flytja þá sem gengið hafa of hratt um gleðinnar dyr upp á lögreglustöð.

Þetta kom meðal annars fram í máli Stefáns Eiríkssonar, lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, á fundi sem lögreglan hélt í dag með borgaryfirvöldum og veitingamönnum í miðborginni.

Stefán kvaðst líta svo á, að það væru sameiginlegir hagsmunir þessara aðila að ráðin yrði bót á því ófremdarástandi sem ríkti í miðborginni á nóttunni um helgar. Hvatti hann til þess að allir aðilar tækju höndum saman í stað þess að vísa ábyrgðinni hver á annan.

Meðal þeirra samstarfsverkefna sem Stefán lagði til eru mótun stefnu um mannlíf í miðborginni, fjölda skemmtistaða, gerð þeirra og opnunartíma. Stefán hefur áður lagt til að opnunartíminn verði endurskoðaður og hvort til greina komi að þeir staðir sem opnir séu lengst verði fluttir úr miðborginni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert