Afar óvenjulegt að sjá skjaldbökur við Íslandsstrendur

Sæskjaldbakan á sundi undan Reykjanesi.
Sæskjaldbakan á sundi undan Reykjanesi.

„Ég veit ekki til þess að hér hafi sést sæskjaldbökur áður,“ segir Droplaug Ólafsdóttir, líffræðingur hjá Hafrannsóknarstofnun, aðspurð um fréttir af því að sæskjaldbaka hafi sést í Garðsjó undan Reykjanesi í dag. Hún segist þó vita til þess að skjaldbaka hafi sést fyrir mörgum árum síðan við hvalatalningu en að það hafi verið töluvert langt fyrir sunnan landhelgi landsins.

Droplaug segir að ef um skjaldböku hafi verið að ræða þá sé heimsóknin mjög óvenjuleg. Hún á þó ekki von á því að skjaldbökur fari að venja komu sína hingað til lands. Hún bendir á nú sé sá árstími þegar sjórinn umhverfis landið sé heitastur „og maður setur þetta strax í samband við hitastig en ég hef enga skýringu á þessu,“ segir Droplaug. Hún segist þó ekki hafa skoðað málið nákvæmlega, aðeins rætt við rekstraraðila hvalaskoðunarbátsins Moby Dick sem sáu skjaldbökuna í dag.

Aðspurð segist hún ekki eiga von á því að málið verði kannað nánar hjá Hafrannsóknarstofnuninni en hún á hinsvegar von á myndum frá þeim sem sáu skjaldbökuna í dag. „Þetta er væntanlega bara eitt dýr sem hefur þvælst hingað. Ég efast um að þetta sé eitthvað sem við megum fara að búast við,“ segir Droplaug að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert