Mögulegt að endurskoða þvagleggsmálið

Myndin er sviðsett
Myndin er sviðsett
Eftir Heiðu Björk Vigfúsdóttur - heida@bladid.net

Björg Thorarensen, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, segir að konan sem var haldið af lögreglunni á Selfossi og þvagprufa tekin með þvaglegg án hennar samþykkis geti fengið endurskoðun á máli sínu hjá dómstólum eftir aðallega tveimur leiðum.

Geti hún borið því við í sakamálinu að sönnunargagna hafi verið aflað með ólögmætum hætti, en hún var ákærð fyrir ölvunarakstur og virðingarleysi við lögreglu og sjúkraflutningamenn. Einnig geti hún höfðað skaðabótamál á hendur ríkinu ef hún telur sig hafa orðið fyrir einhvers konar tjóni eða miska út af aðgerðum lögreglunnar. Björg segir að þegar búið sé að reyna öll réttarúrræði á Íslandi og ef ekki verði fallist á kröfur hennar þá geti konan leitað til Mannréttindadómstóls Evrópu.

Guðrún Dögg Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Mannréttindaskrifstofu Íslands, segir að Mannréttindaskrifstofan ætli að vekja athygli á máli konunnar og sé það eitt fjölmargra mála og atriða sem sendar verði upplýsingar um til eftirlitsnefndar Sameinuðu þjóðanna. „Það að ríkissaksóknari hafi ekki séð ástæðu til þess að skoða mál konunnar nánar finnst okkur ekki eðlilegt miðað við hvað þetta var íþyngjandi fyrir hana. Við vekjum athygli á málinu hjá eftirlitsnefndinni af því að þetta gæti talist til ómannlegrar og vanvirðandi meðferðar samkvæmt samningi gegn pyntingum."

Björg Thorarensen segir að dómur Mannréttindadómstóls Evrópu í málinu Jalloh gegn Þýskalandi, frá 11. júlí 2006, sé mjög stefnumarkandi og fordæmisgefandi hjá Mannréttindadómstólnum um áhrif sönnunargagna lögreglu til notkunar í refsimáli og takmarkanir á valdbeitingu lögreglunnar þegar kemur að öflun sönnunargagna og líkamlegri þvingun. Ráði úrslitum í svona málum hvort til séu vægari aðferðir við að ná sama markmiði.

Nánar í Blaðinu

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert