Dularfullt ísbjarnarhvarf

Ísbjörninn sem hvarf.
Ísbjörninn sem hvarf. mbl.is/

Þann 15. ágúst síðast liðinn hvarf ísbjörn úr verslunarmiðstöðinni Kringlunni í Reykjavík milli klukkan 14 og 16. Ísbjörninn var einn af sjö slíkum og hluti af sýningu myndlistamannsins Bjarka Bragasonar. Verkið nefnist The First One To Go og var ísbjörninn staðsettur á 2. hæð kringlunnar fyrir framan Hagkaupsverslunina þar sem hann lá og klóraði sér hæglátlega á bringunni.

Verkið var hluti af sýningunni Miðbaugur og Kringla, leisure administration and control sem var samstarfsverkefni 11 norrænna myndlistarmanna sem unnu verk sín útfrá rými Kringlunnar og miðbæjar Reykjavíkur.

„Þetta voru staðbundin verk sem áttu að eiga samtal við almenning sem notar svæðið," sagði Bjarki í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins.

Björninn sem hvarf er einn og hálfur metri á hæð sitjandi með langa rafmagnssnúru og þótti myndlistarmanninum það nokkuð spaugilegt að sjá fyrir sér fólk bera þetta út úr Kringlunni um hábjartan dag án þess að nokkur gerði við það athugasemd.

Lögreglan rannsakar nú málið og eru þeir sem geta gefið upplýsingar um það vinsamlegast beðnir að hringja í síma 8919447 eða hafa samband við lögregluna í Reykjavík í síma 4441000.

Sjö ísbirnir voru hluti af sýningu Bjarka en einum þeirra …
Sjö ísbirnir voru hluti af sýningu Bjarka en einum þeirra var stolið. mbl.is
Verkið er ádeila á ofnotkun einkabílsins og áhrif hans á …
Verkið er ádeila á ofnotkun einkabílsins og áhrif hans á umhverfið. mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert