Styrkja ímynd erlendra kvenna á Íslandi

Sabine Leskopf
Sabine Leskopf
Eftir Hildi Eddu Einarsdóttur - hilduredda@bladid.net

Samtök kvenna af erlendum uppruna eru frjáls félagasamtök og voru stofnuð á kvennafrídeginum 24. október árið 2003, en í þeim eru konur frá öllum heimshornum sem eiga það eitt sameiginlegt að búa og starfa á Íslandi.

Sabine Leskopf, einn stjórnarmanna í samtökunum, segir hlutverk samtakanna meðal annars vera að fræða erlendar konur um réttindi þeirra og skyldur í íslensku samfélagi ásamt því að styrkja ímynd erlendra kvenna.

„Við minnum á að erlendar konur eru mjög virkir þátttakendur í íslensku samfélagi og við höfum töluvert verið að blanda okkur í umræðuna á pólitískum vettvangi sem okkur finnst mjög mikilvægt. Við höfum alltaf fengið töluverða athygli frá fjölmiðlum, til dæmis í umræðu varðandi heimilisofbeldi, sem er auðvitað mjög mikilvægt málefni þótt það sé alls ekki það eina sem skiptir máli í sambandi við erlendar konur," segir hún.

„Oft vantar þær upplýsingar varðandi mennta- og heilbrigðiskerfið og við höfum meðal annars staðið fyrir fyrirlestrum um þau mál ásamt því sem við höfum haldið tölvunámskeið fyrir konur frá Taílandi, Póllandi og víðar. Hér er allt svo tölvuvætt og margar erlendar konur gera sér ekki grein fyrir því hvað þær missa af miklum upplýsingum ef þær nota ekki tölvur, ekki bara varðandi íslenskt samfélag heldur líka þeirra heimalönd."

Sabine segir Samtök kvenna af erlendum uppruna hafa notið mikils stuðnings hér á landi, ekki síst frá kvennasamtökum. „Til dæmis höfum við átt gott samstarf við hreyfingar á borð við Allar heimsins konur sem vinnur að menntaverkefnum fyrir erlendar konur. Önnur kvennasamtök styðja líka við bakið á okkur enda er mikið talað um launamun kynjanna hér á landi. Fólk af erlendum uppruna á oft erfitt með að fá menntun sína metna hér á landi þannig að erlendar konur búa í raun við tvöfalt misrétti að því leyti," bendir hún á.

Nánar í Blaðinu

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert