Jóhann Páll útgefandi Forlagsins og Halldór Guðmundsson stjórnarformaður

Hús Máls og menningar við Laugaveg í Reykjavík.
Hús Máls og menningar við Laugaveg í Reykjavík.

Stjórnir Máls og menningar – Heimskringlu og JPV útgáfu hafa undirritað viljayfirlýsingu um að vinna að því markmiði að bókadeild Eddu útgáfu, sem MM-H hefur ákveðið að kaupa, og JPV útgáfa verði sameinuð í einu útgáfufyrirtæki.

Hið nýja félag mun hljóta nafnið Forlagið. Stefnt er að því að gefa áfram út bækur undir merkjum JPV útgáfu, Máls og menningar, Heimskringlu, Iðunnar og Vöku-Helgafells, og að lykilstarfsfólki félaganna bjóðist áfram hliðstæð störf hjá hinu nýja félagi. Árni Einarsson mun láta af störfum sem forstjóri Eddu en taka sæti í stjórn hins sameinaða félags.

Í fréttatilkynningu kemur fram að staðið verður við skuldbindingar forlaganna vegna útgáfuáætlunar haustsins og stefnt að glæsilegri jólabókaútgáfu.

Ákveðið hefur verið að Jóhann Páll Valdimarsson verði útgefandi félagsins, Egill Örn Jóhannsson framkvæmdastjóri og Halldór Guðmundsson stjórnarformaður.

Viljayfirlýsingin er undirrituð með fyrirvara um að kaup Máls og menningar - á bókahluta Eddu gangi eftir og að hluthafafundur Máls og menningar – Heimskringlu samþykki það.

„Í yfirlýsingunni segir að markmið aðila sé að mynda öflugt fyrirtæki á sviði bókaútgáfu og að aðilar séu sammála um að eignarhlutföll hluthafahópa verði jöfn í hinu nýja félagi.

Undanfarin ár hafa um margt verið erfið í íslenskri bókaútgáfu, sum fyrirtæki hafa tapað stórum fjárhæðum og erfitt hefur reynst að reka öfluga starfsemi á þessum vettvangi. Með samkomulaginu hyggjast félögin stefna að aukinni hagræðingu og betri nýtingu bæði bókalagers og útgáfuréttinda, neytendum og höfundum til hagsbóta.

Slík hagræðing gæti fengist þegar öflugt markaðsstarf JPV útgáfu, sem byggst hefur á vaxandi og metnaðarfullri útgáfu, og sterkur bókalisti MM-H yrði tengdur saman og um leið styrktur grundvöllur á sviði erlendrar réttindasölu. Hið nýja fyrirtæki mun því búa yfir miklum styrk á lykilsviðum bókaútgáfunnar, auk þess að sameina innan sinna vébanda útgáfuréttinn á mörgum helstu verkum íslenskra bókmennta, skáldverka sem fræðirita," samkvæmt fréttatilkynningu.

Jóhann Páll Valdimarsson útgefandi Forlagsins.
Jóhann Páll Valdimarsson útgefandi Forlagsins. mbl.is/Golli
Halldór Guðmundsson, stjórnarformaður Forlagsins
Halldór Guðmundsson, stjórnarformaður Forlagsins
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert