Landspítalinn háskólasjúkrahús verður Landspítali

Landspítalinn
Landspítalinn mbl.is/ÞÖK

Ný heilbrigðislög taka gildi á morgun, 1. september. Í þeim felast margar breytingar á skipulagi og stjórnun heilbrigðisþjónustu á Íslandi. Sumar þeirra snúa beint að Landspítala, eins og Landspítalinn háskólasjúkrahús heitir framvegis.

Síðasti fundur stjórnarnefndar Landspítala - háskólasjúkrahúss var haldinn á Eiríksstöðum í gær en samkvæmt nýju lögunum verður stjórnarnefnd ekki í stjórnskipulagi Landspítala, eins og verið hefur á landssjúkrahúsinu síðan árið 1935. Í stað hennar kemur 9 manna ráðgjafarnefnd.

Eftirfarandi bókun var samþykkt á fundi stjórnarnefndar LSH í gær:
„Ný heilbrigðislög taka gildi núna 1. september 2007. Í þeim felast margar breytingar á skipulagi og stjórnun heilbrigðisþjónustu á Íslandi. Sumar þeirra snúa beint að Landspítala, eins og háskólasjúkrahúsið heitir framvegis. Samkvæmt nýju lögunum verður ráðgjafarnefnd forstjóra og framkvæmdastjórn til stuðnings í verkefnum sínum. Stjórnarnefnd heyrir hins vegar sögunni til í stjórnskipulagi landssjúkrahússins, þar sem hún hefur verið allt frá árinu 1935.

Undanfarin ár hafa verið tími umróts, endurskipulagningar og uppbyggingar í tengslum við mótun nýja háskólasjúkrahússins. Þjónustan hefur aukist og batnað á flestum sviðum en ítrustu hagkvæmni verið gætt. Þannig hefur rekstrarkostnaður staðið nánast í stað á föstu verðlagi undangengin sjö ár. Hins vegar þarf að treysta fjárhag stofnunarinnar svo hún geti mætt þeim kröfum sem til hennar eru gerðar um framúrskarandi þjónustu.

Landspítali er ung stofnun en býr að langri reynslu. Framundan er tími enn frekari sóknar til bættrar heilbrigðisþjónustu fyrir landsmenn með byggingu nýja sjúkrahússins við Hringbraut.

Við þessi tímamót þakkar núverandi stjórnarnefnd þeim fjölmörgu sem hún hefur átt samskipti við á undanförnum árum, innan spítalans og utan. Starfsmönnum Landspítala, stjórnendum hans og ráðgjafarnefnd er óskað heilla og velgengni í vandasömum störfum á komandi árum."

Nánar um nýju lögin

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert