Hæstiréttur staðfestir frávísun máls vegna kerfisvillu í gjaldeyriskerfi

Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Norðurlands eystra um að vísa frá ákæru á hendur fjórum mönnum, sem nýttu sér kerfisvillu í gjaldeyrisviðskiptakerfi Glitnis en mennirnir notuðu netbanka til að kaupa dollara fyrir evrur og seldu síðan strax aftur fyrir evrur. Kerfisvillan gerði það að verkum að mennirnir fengu í sinn hlut álagsgreiðslur, sem áttu að renna til bankans.

Samkvæmt ákærum, sem saksóknari efnahagsbrota hjá ríkislögreglustjóra gaf út, auðguðust mennirnir samtals um 30 milljónir króna, þó einn sínu mest eða um rúmar 24 milljónir, á að notfæra sér villuna. Héraðsdómur vísaði málinu frá á þeirri forsendu, að saksóknari efnahagsbrota hefði ekki sjálfstætt vald til að gefa út ákæruna. Reglugerð um saksóknarann gengi þannig lengra en lög um opinber mál heimiluðu. Hæstiréttur tekur undir, að ekki sé að finna viðhlítandi lagastoð til að víkja frá lögbundinni skipun ákæruvaldsins með reglugerð. Ákæruvald sé í höndum ríkissaksóknara og lögreglustjóra, þar á meðal ríkislögreglustjóra, og ákvæði reglugerðar um að saksóknari efnahagsbrota við embætti ríkislögreglustjóra fari sjálfstætt með ákæruvald í þeim málum sé því í andstöðu við lögin.

Hæstiréttur staðfesti einnig frávísun Héraðsdóms Reykjaness á máli, sem höfðað var á hendur tveimur forsvarsmönnum fyrirtækis fyrir að skila röngum virðisaukaskattskýrslum og standa ekki skil á staðgreiðslusköttum og fleiri brotum. Er málinu vísað frá á sömu forsendum og hinum málunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert