Góður árangur af auknu eftirliti lögreglu

Góður árangur var af hertu eftirlit lögreglu í miðborg Reykjavíkur í gærkvöldi og nótt, fyrstu nóttina þar sem lögreglumenn úr sérsveit ríkilögreglustjóra störfuðu með lögreglu höfuðborgarsvæðisins við eftirlit í miðborginni, að því er segir í tilkynningu frá ríkislögreglustjóra.

Fjórir sérsveitarmenn og fimm lögreglumenn úr liði höfuðborgarlögreglunnar voru við eftirlit og löggæslustörf í miðborginni, til viðbótar við þá lögreglumenn sem almennt sinna þessu eftirliti.

Jón Bjartmarz, yfirlögregluþjónn hjá embætti Ríkislögreglustjóra, segir að aukin sýnileiki lögreglunnar hafi haft greinileg jákvæð áhrif á ástandið í miðbænum. „Markmiðið með þessu átaki er að haldi uppi lögum og reglum og koma í veg fyrir óspektir og skemmdarverk og það virðist hafa tekist ágætlega í nótt,” segir Jón í tilkynningu.

Þótt ástandið hafi þótt gott í nótt þurftu lögreglumennirnir að handtaka um 20 manns vegna brota á lögreglusamþykkt Reykjavíkur, einkum vegna ósæmilegrar hegðunnar, ölvunar, óhlýðni við lögregluna, flöskubrota og fleira.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert