Fyrsta djúpborunarholan boruð við Kröflu á næsta ári

Júlíus Jónsson, forstjóri HS, Friðrik Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar, Össur Skarphéðinsson, …
Júlíus Jónsson, forstjóri HS, Friðrik Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar, Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra og Þorkell Helgason, orkumálastjóri, á blaðamannafundi þar sem djúpborunarverkefnið var kynnt. mbl.is/Kristinn

Samstarfsaðilar um djúpborunarverkefnið hafa gert nýjan samstarfssamning. Í honum felst að fyrsta holan verður boruð við Kröflu árið 2008 niður á 4-5 km dýpir. Jafnframt verða boraðar tvær aðrar holur, á Hengissvæðinu og Reykjanesi. Að verkefninu standa Landsvirkun, Orkuveita Reykjavíkur, Hitaveita Suðurnesja, Orkustofnun og Alcoa.

Orkufyrirtækin þrjú munu láta bora hvert sína holu niður á 3,5-4 km dýpi árin 2009-2010 og er kostnaður við hverja holu áætlaður 700-1000 milljónir króna. Áætlanir gera ráð fyrir að tilraunaorkuvinnslu ljúki árið 2015 eða þar um bil.

Þá nær samstarf allra aðilanna til vísindaþáttar verkefnisins, en því felst dýpkun Kröfluholunnar, kjarnataka á bergi, prófanir á borholuvökva, blástursprófanir og eftir atvikum tilraunaorkuver. Áætlaður kostnaður við dýpkun Kröfluholunnar einnar er um 1000 milljónir króna.

Þær holur sem almennt eru boraðar til virkjunar jarðhita á Íslandi, eru 2 til 3 kílómetrar á dýpt og blása gufu sem er um 300°C. Gert er ráð fyrir að sé borað niður á 4-5 km dýpi fáist allt að tíu sinnum meiri orka. Hitastigið á þessu dýpi er um 400-600°C. Ef unnt reynist að bora eftir 450°C heitri gufu og sé miðað við að upp komi 0,67 rúmmetrar af gufu á sekúndu, gæti slík hola staðið undir framleiðslu á 40-50 megavöttum af rafmagni.

Íslenska djúpborunarverkefnið var stofnað árið 2000 með samstarfi Orkuveitu Reykjavíkur, Orkustofnunar, Landsvirkjunar og Hitaveitu Suðurnesja en nú hefur Alcoa bæst við.

Miklir möguleikar

„Af hálfu ríkisstjórnarinnar er lögð mikil áhersla á að þetta verk gangi vel fljótt og vel og unnt er. Við teljum að í þessu felist gríðarlega miklir möguleikar,“ sagði Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra.

Hann benti á að Íslendingar séu í algjörum fararbroddi hvað þetta varðar. „Þetta er fyrsta verkefnið sinnar tegundar í heiminum. Það er fylgst með því af öllum vísindamönnum sem tengjast jarðhitavinnslu um allan heim,“ sagði ráðherra.

Össur sagði jafnframt að hann telji að framundan sé mikil útrásarsókn Íslendinga á orkusviðinu. „Ef þetta tekst þá verður það heimamundur sem a.m.k. veitir okkur um töluverðan tíma ákveðið forskot, en er líka ákveðið leynivopn Íslendinga þegar þeir munu lenda í samkeppni á erlendri grundu um leyfi til þess að vinna orku. Forskotið felst í því að ef við náum að beisla þessa tækni þá höfum við yfir að ráða þekkingu sem getur náð meiru úr jarðhitakerfum heldur en sú tækni sem menn eru að beita núna,“ sagði Össur og bætti því við að ríkisstjórnin fylgist með verkefninu af áhuga.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert