Fráleitt að tala um að forsendur álvers í Helguvík hafi breyst

mbl.is/Brynjar Gauti

Landsnet segir, að útfærsla á flutningi raforku á Suðurnesjum sé í eðlilegum farvegi. Segir Landsnet að málið sé til kynningar og umfjöllunar hjá sveitarfélögunum eins og lög geri ráð fyrir. Miðað við það sem liggi fyrir á þessu stigi málsins sé ekkert sem bendi til annars en að viðunandi niðurstaða náist og því fráleitt að tala um að forsendur fyrir álveri í Helguvík hafi breyst.

„Lögum samkvæmt ber Landsneti að byggja upp flutningskerfi raforku á sem hagkvæmastan hátt og hafa allar tillögur fyrirtækisins á Reykjanesi miðast við það. Við hönnun flutningskerfisins er af hálfu Landsnets lögð áhersla á að taka tillit til framtíðarþróunar, eins og raunhæft þykir á hverjum tíma. Þær framkvæmdir sem nú eru til umfjöllunar snúast annars vegar um nauðsynlega endurnýjun á núverandi kerfi, án tillits til frekari framtíðaruppbyggingar, og hins vegar um uppbyggingu vegna virkjanaáforma í tengslum við fyrirhugaða iðnaðarstarfsemi á svæðinu, svo sem byggingu álvers, hugsanleg netþjónabú og aðra atvinnuuppbyggingu.

Landsnet vinnur eftir þeirri meginstefnu að raflínur séu almennt lagðir í lofti og jarðstrengir einvörðungu notaðir á styttri vegalengdum í byggð og þegar um lægri spennu er að ræða. Með þeim hætti er fyllstu hagkvæmni gætt fyrir alla notendur kerfisins," segir í yfirlýsingu frá Landsneti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert