Tugir kílóa af fíkniefnum í skútu í Fáskrúðsfjarðarhöfn

Skútan við hlið varðskips í Fáskrúðsfirði.
Skútan við hlið varðskips í Fáskrúðsfirði. mbl.is/Helgi Garðarsson

Tugir kílóa af ætluðum fíkniefnum hafa fundist í skútu, sem hald var lagt á í Fáskrúðsfjarðarhöfn í morgun. Stefán Eiríksson, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, segir að líklega sé um að ræða mesta magn af fíkniefnum sem fundist hafi í einu hérlendis. Málið er umfangsmikið og hafa lögreglulið í ýmsum Evrópulöndum komið að því.

Tveir voru handteknir um borð í skútunni og einn á bryggjunni og fleiri handtökur hafa farið fram. Um er að ræða Íslendinga. Aðgerðir eru enn í gangi. Ekki var upplýst hvort þeir, sem handteknir voru, hafi áður komið við sögu lögreglunnar.

Stefán sagði á blaðamannafundi lögreglunnar í dag, að rannsókn málsins hefði staðið yfir í nokkurn tíma og lögreglulið í nokkrum Evrópulöndum hefði komið að þeirri rannsókn vegna tengsla lögreglunnar hér á landi við Europol.

Tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu er komin austur á Fáskrúðsfjörð og er að vigta efnin og rannsaka þau. Leit stendur enn yfir í skútunni og við hana. Stefán Eiríksson sagði, að talið væri að um sé að ræða örvandi fíkniefni.

Stefán sagði, að margar innlendar og erlendar stofnanir hefðu komið að rannsókn málsins. Fíkniefnadeild lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu hefur stýrt rannsókninni með aðstoð og aðkomu alþjóðafulltrúa ríkislögreglustjóra og tengslafulltrúa íslensku lögreglunnar hjá Europol. Í aðgerðunum í morgun tóku þátt auk lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og Eskifirði, sérsveit ríkislögreglustjóraembættisins, tollgæslan og Landhelgisgæslan með varðskip og þyrlu. Tugir manna hafa samtals komið að rannsókninni.

Fram kom hjá Stefáni, að skútan var keypt í útlöndum en áhöfnin var íslensk. Ekki er vitað til að skútan hafi komið áður til landsins. Friðrik Smári Björgvinsson, yfirmaður rannsóknadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, sagði að þótt rannsóknin hafi tekið marga mánuði sé hún enn á frumstigi og mikil vinna væri eftir, ekki aðeins hér á landi heldur einnig í öðrum löndum.

Skipulagsbreytingar lögreglunnar að skila sér
Haraldur Johannesson sagði, að sú nýbreytni hefði verið tekin upp um síðustu áramót að íslenska lögreglan sendi fulltrúa til starfa hjá Europol. Þessi lögregluaðgerð ætti þeim fulltrúa, Arnari Jenssyni, allnokkuð að þakka. Það hefði einnig komið í ljós, að breytingar sem hefðu verið gerðar að undanförnu á skipulagi lögreglumála hér á landi væru að skila sér. Lögreglulið ynnu þéttar saman, skiptust á upplýsingu, mannafla og tækjabúnaði.

Haraldur sagði einnig ljóst, að alþjóðleg lögreglusamvinna væri orðin með því móti, að íslensk lögregla gæti ekki unnið sína vinnu sómasamlega nema með þátttöku erlendra löggæslustofnana.

„Þessir tveir þættir hafa spilað þannig saman í þessu tiltekna máli, að lögreglan hefur náð þessum mikla árangri. Við höfum verið í sambandi við Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, sem hefur fylgst með þessu og þetta er því mjög þýðingarmikill prófsteinn á það hvernig skipulagsbreytingar í löggæslumálum hafa gengið fram," sagði Haraldur.

Frá blaðamannafundi lögreglu vegna fíkniefnafundar í skútu í morgun.
Frá blaðamannafundi lögreglu vegna fíkniefnafundar í skútu í morgun. mbl.is/Júlíus
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert