Ólafur Ragnar leggur áherslu á samvinnu Íslendinga og Bandaríkjamanna

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands.
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands. Gunnar G. Vigfússon

Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson flutti í gær fyrirlestur í boði Harvard háskóla og var hann upphafið á nýrri fyrirlestraröð háskólans sem helguð er framtíð orkumála – The Future of Energy. Fyrirlestur forseta bar heitið Virkjum eldhnöttinn í iðrum jarðar.

Í fyrirlestrinum lagði forseti ríka áherslu á nauðsyn víðtækrar samvinnu milli íslenskra vísindamanna og sérfræðinga og bandarískra háskóla og rannsóknarstofnana. Slík samvinna gæti lagt grundvöll að stórfelldum nýjum áföngum í nýtingu jarðvarma víða um heim. Tækninýjungar og verkfræðileg kunnátta væru forsendur framfara á þessu sviði og vísindasamfélagið þyrfti að vera þar í fararbroddi. Með samvinnu við fremstu háskóla Bandaríkjanna gætu Íslendingar náð enn meiri árangri, að því er segir í tilkynningu.

Í þessu sambandi nefndi forseti sérstaklega nýlegar ákvarðanir um tilraunir með djúpboranir og hvernig hægt er að styrkja lághitasvæði svo að þau megi nýta við framleiðslu á rafmagni sem og leit að jarðhita á hafsbotninum og beitingu þeirrar tækni sem fengist hefur við olíuboranir úti fyrir ströndum ýmissa landa í þágu nýtingar jarðhita undir hafsbotni.

Reynsla Íslendinga á undanförnum árum sýndi að vísindalegar framfarir og tækninýjungar hafa verið helsta hreyfiaflið í aukinni nýtingu jarðhita meðal annars til raforkuframleiðslu. Ef bandarískir háskólar og rannsóknarstofnanir kæmu á öflugan hátt til liðs á þessu sviði með fulltingi bandaríska þingsins og stjórnvalda væri hægt að stórauka jarðhitanýtingu tuga landa í öllum heimshlutum. Rakti forseti m.a. möguleika á aukinni nýtingu jarðvarma víða í Bandaríkjunum. Í fyrirlestrinum lýsti forseti þróuninni á Íslandi á undanförnum áratugum, verkefnum sem Íslendingar hafa beitt sér fyrir víða um heim og hvernig aukin nýting hreinnar orku er lykilþáttur í baráttunni gegn loftslagsbreytingum, samkvæmt fréttatilkynningu.

Á undan fyrirlestrinum átti forseti ítarlegan fund með prófessorum og forystumönnum úr allmörgum deildum Harvard háskóla þar sem rætt var um hvernig aukin samvinna á þessu sviði milli Harvard og íslenskra menntastofnana og vísindamanna gæti skilað umtalsverðum árangri á næstu árum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert