Umferðarljósum nú miðstýrt

Miðlægt stýrikerfi fyrir fjölförnustu gatnamótin í Reykjavík hefur verið tekið í notkun. Nýja kerfið aðlagar umferðarljósin umferðinni á hverjum tíma, lengir tíma ljósa þegar álagið er mest og lágmarkar biðtíma vegfarenda í gatnakerfinu.

Í Reykjavík er 116 gatnamótum stjórnað með umferðarljósum, og í þessum fyrsta áfanga verkefnisins eru 36 gatnamót á stofnbrautum miðsvæðis í Reykjavík, auk þriggja gatnamóta á Hafnarfjarðarvegi. Þessa dagana er unnið að fínstillingu kerfisins, en ekki þarf að búast við truflunum á umferð vegna þess. Þetta kemur fram á vef Reykjavíkurborgar.

Miðlæg stýring umferðarljósa byggir á samskiptaneti milli stjórnkassa og stjórntölvu og umfangsmikilli söfnun umferðarupplýsinga. Út frá þessum upplýsingum reiknar stjórntölvan út flæði umferðarinnar á öllu svæðinu hverju sinni, ákvarðar hvaða stýring er við hæfi og sendir boð í stjórnkassana í gegnum samskiptanetið.

Miðlæg stýring umferðarljósa er sameiginlegt verkefni Framkvæmdasviðs Reykjavíkur og Vegagerðarinnar, en í ársbyrjun 2006 var samið við þýska fyrirtækið Siemens AG um þennan fyrsta áfanga verkefnisins. Honum lýkur nú á haustdögum með formlegri afhendingu kerfisins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert