Dómar tvöfaldast

Eftir Þórð Snæ Júlíusson - thordur@bladid.net

Fíkniefnadómar í Hæstarétti í ár eru rúmlega helmingi þyngri en þeir voru árið 2006. Það sem af er árinu 2007 er meðaltal refsingar fyrir slík brot rúmlega fjögurra ára fangelsi, en var um tvö ár í fyrra. Þyngstu dómarnir vegna fíkniefnamála féllu þó árið 2002 þegar sex manns voru dæmdir í fjögurra ára og átta mánaða fangelsi að meðaltali.

Flest fíkniefnamálin sem hafa komið til kasta Hæstaréttar á þessu ári komu upp í fyrra. Það ár var lagt hald á meira magn harðra fíkniefna en nokkru sinni áður á Íslandi, tæp 47 kíló af amfetamíni og um þrettán kíló af kókaíni.

Framan af árinu 2007 virtist stefna í verulegan samdrátt í haldlagningu fíkniefna hérlendis. Það breyttist allt saman í lok síðustu viku þegar lögregla fann 45 kíló af amfetamíni, fjórtán kíló af etöfludufti og 1.800 etöflur um borð í seglskútu í höfninni við Fáskrúðsfjörð.

Hámarksrefsing fyrir fíkniefnabrot var þyngd úr tíu árum í tólf árið 2001 í kjölfar þess að refsiramminn hafði verið nær fullnýttur í nokkrum málum sem tengdust innflutningi á etöflum. Þremur mánuðum eftir að lagabreytingin gekk í gegn var Austurríkismaður handtekinn í Leifsstöð með rúmlega fjórum sinnum meira magn af slíku efni en áður hafði verið lagt hald á hérlendis. Hann fékk tólf ára dóm í héraði sem er í fyrsta og eina skiptið sem refsiramminn hefur verið fullnýttur á Íslandi. Hæstiréttur mildaði dóminn yfir honum í níu ár.

Nánar í Blaðinu

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert