Sýknudómur í kynferðisbrotamáli ómerkur og sendur heim í hérað á ný

Hæstiréttur Íslands
Hæstiréttur Íslands Brynjar Gauti

Hæstiréttur ómerkti í dag sýknudómi í kynferðisbrotamáli í Héraðsdómi Reykjavíkur og vísaði málinu heim í hérað til meðferðar og dómsálagningar að nýju. Héraðsdómur sýknaði karlmann af ákæru fyrir nauðgun en maðurinn var ákærður fyrir að hafa þvingað unglingsstúlku til samræðis sumarið 2005 þar sem þau voru saman í bíl. Dómurinn taldi ekki sannað, að kynmökin hefðu verið gegn vilja stúlkunnar.

Stúlkan var 14 ára þegar þetta gerðist en málið var kært í mars árið 2006. Maðurinn neitaði því við yfirheyrslur fyrir dómi, að hafa átt kynmök við stúlkuna en dómarar í héraðsdómi töldu sannað, með framburði stúlkunnar, að þau hefðu haft mök inni í bifreiðinni umrætt sinn.

Héraðsdómur taldi hins vegar að ekki væri hægt að líta framhjá því, að framburður stúlkunnar um hvort mökin hafi verið gegn hennar vilja, hefði verið afar óljós og ekki bent skýrlega til þess að maðurinn hafi beitt hana ofbeldi eða hótað henni ofbeldi eða að maðurinn hefði mátt skynja af hegðun stúlkunnar, að mökin væru gegn hennar vilja. Þá renni aðrir þættir málsins ekki stoðum undir að stúlkan hafi upplifað hegðun mannsins sem nauðgun.

Segir héraðsdómurinn að þegar framangreint sé virt, og þar sem ekki njóti neinna annarra gagna við, sem rennt geti stoðum undir sekt mannsins, leiki svo mikill vafi á sekt hans að það beri að sýkna hann.

Í niðurstöðu Hæstaréttar var með vísan til tilvitnana í skýrslur stúlkunnar fyrir dómi ekki talið rétt það sem fram kom í forsendum héraðsdóms um óskýrleika framburðar hennar um hvort mökin hefðu verið gegn hennar vilja og að hann benti ekki skýrlega til að karlmaðurinn, sem var 23 ára þegar brotið var framið, hafi mátt skynja af hegðun hennar að svo væri, enda kæmi skýrt fram í tilvitnuðum svörum stúlkunnar að mökin hefðu verið gegn hennar vilja og að hún segðist hafa gefið manninum það til kynna með ótvíræðum hætti. Þá var tekið fram að hafi héraðsdómur talið vafa leika á hvort beitt hafi verið ofbeldi eða hótun um það í umrætt sinn hafi borið að veita sakflytjendum kost á að reifa málið út frá því hvort heimfæra ætti brot mannsins undir þágildandi ákvæði 195. gr. almennra hegningarlaga. Af framangreindum ástæðum var héraðsdómur ómerktur og málinu vísað heim í hérað til meðferðar og dómsálagningar að nýju.

Mál þetta dæmdu hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinson, Garðar Gíslason, Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson. Ingibjörg skilaði sératkvæði í málinu en hún var sammála meirihlutanum um að ómerkja sýknudóminn og að senda hann aftur í hérað. Jafnframt var hún sammála meirihluta um að allur sakarkostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða á báðum dómstigum og þóknun skipaðs réttargæslumanns bótakrefjanda í héraði.

Í sératkvæði Ingibjargar segir að þar sem við yfirheyrslu fyrir dómi 3. september 2007 voru þrír héraðsdómarar viðstaddir skýrslugjöf stúlkunnar sem þá var 15 ára, í sérútbúnu herbergi sem ætlað er til að yfirheyra börn.

„Í ljósi þess hversu íþyngjandi yfirheyrsla í kynferðisbrotamálum er fyrir barn hefði verið nægilegt að dómsformaður hefði annast yfirheyrsluna en meðdómsmenn fylgst með henni í þar til gerðu herbergi við hlið þess fyrrnefnda, enda gátu þeir beint því til dómsformanns að leggja spurningar um sakarefnið fyrir barnið hefðu þeir óskað þess," samkvæmt sératkvæði Ingibjargar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert