Bankarnir berjast um nemendur

Eftir Atla Fannar Bjarkason - atli@bladid.net

Bankarnir yfirbjóða hver annan í baráttu sinni um að fá að styrkja nemendafélögin. Í staðinn nýta þeir nemendafélögin til að hvetja nemendur til viðskipta og beita gulrótaraðferðinni við að styrkja nemendafélögin meira eftir því sem fleiri nemendur skólans snúa viðskiptum sínum að þeim. Bankarnir fjármagna einnig skemmtikrafta og tæki í skiptum fyrir að nemendafélögin útvegi bankanum viðskiptavini. Þetta hefur Blaðið eftir fyrrverandi formanni nemendafélags, sem ekki vill láta nafns síns getið.

„Áður en bankarnir komu til sögunnar var það þannig að þeir sem voru í nemendafélaginu fengu ódýrara á ball en aðrir. Svo er þetta nýr vinkill að ef þú ert í nemendafélaginu og í viðskiptum við vissan banka, þá færðu einhvern annan afslátt. Það má alveg gagnrýna það, við höfum ekkert tekið á þessu. Við hefðum kannski átt að gera það," segir Már Vilhjálmsson, rektor Menntaskólans við Sund. Már segir engar reglur vera um samskipti banka við nemendur innan veggja skólans, þrátt fyrir að þorri nemenda sé undir lögaldri.

Brynja Björg Halldórsdóttir, er nemandi í Menntaskólanum í Reykjavík. „Ég er með Spronkort vegna þess að skólinn minn er í viðskiptum við Spron. Þetta kort nota ég bara til að kaupa ballmiða. Það eru margir sem gera þetta, nota kortið ekkert fyrir utan það," segir hún.

Nánar verður fjallað um viðskipti banka við nemendafélög í Blaðinu á morgun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert